Mikið hefur verið deilt um atvik sem varð fyrir nokkrum vikum í Þjóðminjasafninu er aflýsa þurfti erindi fræðimanns frá Ísrael um gervigreind vegna mótmælenda stuðningsfólks Palestínu á vettvangi.
Umræðan heldur áfram og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, segir í Facebook-færslu að sú skoðun að hér hafi átt sér stað atlaga að akademísku frelsi sé dæmi um forréttindablindu:
„Mér finnst akademískt frelsi mjög mikilvægt, og atlögur sem eru gerðar að því í Bandaríkjunum um þessar mundir háalvarlegt mál. En að umræðan á Íslandi skuli snúast um hvort brotið hafi verið á akademísku frelsi eins manns meðan ríkið sem hann er fulltrúi fyrir skýtur og sprengir almenna borgara tugþúsundum saman og sveltir þau sem eftir eru til bana er skýrt dæmi um forréttindablindu.“
Hundruð netverja læka við þessa færslu Eiríks en rithöfundurinn og fyrrverandi þingmaðurinn Guðmundur Andri Thorsson er honum ekki sammála. Guðmundur Andri skrifar:
„Ég er ekki viss. Málið snýst að mínum dómi ekki endilega um það hver hann er heldur fremur hver við erum. Erum við fólk sem þaggar niður í þeim sem við teljum okkur hafa ástæðu til að fyrirlíta. Held að málfrelsi sé svo mikilvægt prinsipp, ekki síst í akademíunni, að mjög ríkar ástæður þurfi til að svipta menn því.“
Eiríkur segir rangt að maðurinn hafi verið sviptur málfrelsi með þessum aðgerðum og segir að hann hafi getað haldið áfram að tala á fundinum, það hefði bara enginn heyrt í honum. Þá segir Guðmundur Andri:
„Þetta er útúrsnúningur.“
Eiríkur svarar:
„Nei, alls ekki. Ég var að tala um umræðuna. Í stað þess að ræða raunverulegar árásir á akademískt frelsi snýst umræðan um þetta, sem er algert hjóm miðað við hvað er að gerast á Gasa.“
Líflegar umræður eiga sér stað um málfrelsi undir færslu Eiríks sem er hér fyrir neðan.