Leikarinn Machael Madsen er látinn, 67 ára að aldri. Talsmaður lögreglunnar í Los Angeles segir að lögregla hafi verið kölluð að heimili leikarans í morgun þar sem leikarinn var úrskurðaður látinn klukkan 8:25 að staðartíma. Talið er að hann hafi látist úr hjartaáfalli.
Madsen var afkastamikill leikari og í miklu uppáhaldi hjá leikstjóranum Quentin Tarantino. Lék hann meðal annars í Reservoir Dogs, Kill Bill: Vol 2, The Hateful Eight og Once Upon a Time in Hollywood. Eins lét hann til sín taka í sjónvarpsþáttum og talaði inn á tölvuleiki á borð við Grand Theft Auto III og Dishonored-leikina.
Leikarinn lætur eftir sig fjögur börn, þeirra á meðal leikarinn Christian Madsen.