Sögufélagið fagnar útgáfu bókarinnar Iceland & Greenland: A Millennium of Perceptions eftir Sumarliða R. Ísleifsson í Sjóminjasafninu í Reykjavík, Grandagarði 8, á föstudag milli kl. 17 og 19.
Höfundurinn mun þann dag fagna sjötugsafmæli sínu.
Í fréttatilkynningu frá Sögufélaginu segir um útgáfuna:
„Sögufélag fagnar útkomu bókarinnar, Iceland and Greenland: A Millennium of Perceptions eftir Sumarliða R. Ísleifsson.
Ímyndir Íslands og Grænlands kannaðar í nýrri enskri útgáfu – þúsund ára saga viðhorfa rakin.
Bókin varpar ljósi á hvernig Ísland og Grænland hafa verið túlkuð af umheiminum á liðnum öldum í máli og myndum, allt frá miðaldaritum til samtímafjölmiðla.
Í bókinni er fjallað um hvernig þessi tvö lönd voru ýmist dásömuð eða fordæmd, sem ill eða góð og allt þar á milli. Fjallað er um hvernig þessar ímyndir hafa breyst á liðnum öldum, hvað þær segja um alþjóðleg viðhorf til norðurslóða – og hvernig þær móta enn í dag sýn fólks á Ísland og Grænland.
Sögufélag hefur frá stofnun árið 1902 gegnt lykilhlutverki í miðlun íslenskrar sögu en þessi útgáfa markar tímamót í sögu Sögufélags sem nú sækir í alþjóðlegan lesendahóp.
Bókin byggir á Í fjarska Norðursins. Ísland og Grænland – viðhorfasaga í þúsund ár, sem kom út á íslensku árið 2020. Árið eftir hlaut höfundur Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir verkið í flokki fræðirita. Í þessari útgáfu hefur textinn verið endurskoðaður í heild sinni, nýjum rannsóknum bætt við og fjöldi nýrra mynda prýðir verkið, þar á meðal elsta mynd sem á að sýna Ísland frá 15. öld og hefur ekki birst fyrr hér á landi.
Þýðandi bókarinnar er Julian Meldon D’Arcy og hönnuður er Sigrún Sigvaldadóttir.
Bókin er fáanleg hjá Sögufélagi og í helstu bókaverslunum.“
Sjá Facebook-síðu útgáfuteitisins hér.