Lýtalæknirinn Dr. Jonny Betteridge, sem nýtur mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum, birti myndband á Instagram fyrir stuttu þar sem hann fór yfir þær aðgerðir sem hann telur Khloé hafa gengist undir, meðal annars augabrúnalyftingu, augnlokaaðgerð og nefaðgerð. Hann sagðist líka telja hana hafa gengist undir andlits- og hálslyftingu.
View this post on Instagram
Khloé blandaði sér í málið og skrifaði athugasemd við myndbandið.
„Ég tek þessu sem hrósi. En í fyrsta lagi, á held ég að það sé fimmtán ár á milli myndanna sem þú notaðir. En hér er listi yfir allt það sem ég hef látið gera við mig. Ég hef verið mjög opin í gegnum tíðina,“ sagði hún.
Hún sagðist hafa gengist undir nefaðgerð, en að það væri eina skurðaðgerðin sem hún hefur farið í.
Hún hefur einnig farið í háreyðingalaser, bótox og kollagen þræðingu, eða eins og það er kallað á ensku „collagen baby threads“. Þetta hefur einnig fengið heitið „lyftiþræðir“ þar sem þetta líkir eftir áhrifum andlitslyftingar án skurðaðgerðarinnar.
Þræðirnir eru settir undir húðina með nál til að örva kollagen myndun.
Hún sagði að það hafi líka hjálpað að missa 36 kíló. „Hægt og rólega í gegnum árin,“ sagði hún.
Hún fer líka reglulega í andlitsmeðferð þar sem laxasæði er notað, og annars konar andlitsmeðferðir.
„Núna, árið 2025, er svo margt sem við getum gert áður en við leggjumst undir hnífinn. En þegar kemur að því, og ef ég ákveð það, þá veit ég um nokkra frábæra lækna.“