fbpx
Miðvikudagur 02.júlí 2025
Fréttir

Jóhanna segir Woke hafa náð tökum á skólunum: „Enginn fær verðlaun eða viðurkenningu fyrir dugnað eða elju“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Þriðjudaginn 1. júlí 2025 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhanna Jakobsdóttir, skjalaþýðandi og fjögurra barna móðir, vakti allt að því landsathygli í vor fyrir beitta og umdeilda grein um Woke-hugmyndafræðina. Vakti greinin svo hatrammar deilur í netheimum að höfundi þótti nóg um.

Jóhanna er engu að síður mætt með nýja skoðanagrein á Vísi, þar sem Woke-hugmyndafræðin kemur við sögu. Greinin fjallar um þær ógöngur sem íslenska skólakerfið virðist komið í en niðurstöður PISA-kannana og ný skýrslu OECD leiða í ljós að stóran hluta skólanemenda hér á landi virðist skorta grunnhæfni.

Í nýju greininni tekur Jóhanna fyrir vaxandi tilhneigingu íslenskra skóla til að leggja af tölustafii íeinkunnagjöf en grípa þess í stað til bókstafa og litakóða. Hún segir þessa þróun runna undan rifjum Woke-hugmyndafræðarinnar þar sem horfið er frá staðreyndum og mælikvörðum en huglægt mat sett í öndvegi. Gefum Jóhönnu orðið:

„Það eru líklega u.þ.b. 10 ár síðan bókstafirnir og litadýrðin komu í stað talna í einkunnagjöf. Hvorki ég né börnin mín skildum nokkuð í þessu kerfi og þegar ég spurði kennarana varð fátt um svör og ekki gat ég heldur séð að þeir gleddust yfir breytingunum. Ég hugsa að ég myndi eiga auðveldara með að læra stærðfræðigreiningu á háskólastigi en að ná utan um þetta svo vel væri, svo ekki sé minnst á að útskýra fyrir öðrum.

Það er stórfurðulegt að hlusta á menntafrömuði halda því blákalt fram að bókstafakerfið virki bara víst betur en talnakerfið. Þá má spyrja sig: Fyrir hverja? Ekki nemendur, ekki foreldra og ekki flesta kennara.

Eftir að hafa gert létta áhættugreiningu tek ég sénsinn á því að særa fram alla helstu lyklaborðsriddara höfuðborgarsvæðisins þegar ég undirstrika að þessi menntastefna er runnin undan rifjum hinnar margumtöluðu og höfuðkvalavaldandi woke-hugmyndafræði (sjá fyrri grein mína um hana).

Hér er farið úr tölulegum og vel mælanlegum kvörðum yfir í huglægt mat. Huglægt allt og ekkert er móðins í dag og er slíkt mat jafnan talið vera mannúðleg leið til að horfa á lífið. Það kann vel að vera að þannig getum við sett upplifun og reynslu í fallegan búning og að það komi einhverjum vel þegar til skamms tíma er litið.“

Enginn hefur ástæðu til að skara fram úr

Jóhanna segir að skólarnir hafi nú horfið frá því að veita nánast öllum nemendum verðlaun fyrir árangur yfir í það að veita engin verðlaun. Nemendur hafi enga ástæðu eða hvata lengur til að reyna að skara fram úr. „Núna er það aftur á móti svo að enginn fær verðlaun eða viðurkenningu fyrir dugnað eða elju í mínum hverfisskóla,“ segir hún.

„Það er leitt að krakkar sem leggja sig alla fram, mæta stíft í skóla og stunda nám af kappi, fái ekki lengur skýr skilaboð úr kerfinu um að það sem þeir lögðu stund á í áratug skipti nokkru einasta máli. „Enginn má vinna en allir eru með,“ virðist ósagt viðkvæði. Það væri lítið gaman að keppnisíþróttum ef sama lögmál gilti þar.“

Hætta að pakka í bómull

Jóhanna segir að við séum á kolrangri braut og verðum að taka afleiðingunum af því og snúa við. Það muni verða bæði leiðinlegt og erfitt en borgi sig til framtíðar:

„Þetta er ekki flókið. Við fullorðna fólkið þurfum einfaldlega að taka sjálf ábyrgð, hverfa frá því að pakka ungu kynslóðinni inn í bómull, bretta upp ermar og taka á okkur þann sársaukafulla kostnað sem fylgir því að snúa af kolrangri braut.

Eins og svo margt sem viðkemur góðu barnauppeldi, verður þetta hundleiðinlegt en mun margborga sig þegar til lengri tíma er litið.“

Greinina í heild má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kona sem flýði blokkina í Írabakka eftir ónæði í sjö ár – „Ég kvartaði næstum daglega í Félagsbústaði“

Kona sem flýði blokkina í Írabakka eftir ónæði í sjö ár – „Ég kvartaði næstum daglega í Félagsbústaði“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þórdís Kolbrún ómyrk í máli: „Við erum slök­ust og staðan fer versn­andi“

Þórdís Kolbrún ómyrk í máli: „Við erum slök­ust og staðan fer versn­andi“