fbpx
Laugardagur 03.maí 2025
Fréttir

Sagðist ekki hafa verið „með gáfur til þess“ að telja tugi milljóna fram til skatts

Ritstjórn DV
Föstudaginn 2. maí 2025 21:07

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður hefur verið sakfelldur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að greiða ekki skatt af háum upphæðum sem hann fékk greiddar inn á bankareikning sinn á þriggja ára tímabili frá bæði einstaklingum og fyrirtækjum. Við rannsókn málsins sagðist hann ekki þekkja einstaklinga sem höfðu lagt honum til háar upphæðir samtals. Alls fékk maðurinn greiddar um 51,5 milljónir króna sem hann taldi ekki fram til skatts.

Í ákæru kom fram að maðurinn hefði fengið þessa upphæð greidda á árunum 2017, 2018 og 2019. Um var að ræða millifærslur frá einstaklingum, fyrirtækjum og það sem í ákærunni var nefnt „reiðufjárinnborganir.“

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar var í ákærunni sagt vera 20,7 milljónir króna.

Skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn á skattskilum mannsins árið 2020.

Ríkisskattstjóri hækkaði skattstofn mannsins vegna umrædds tímabils upp í 61 milljón krón en um margföldun á skattstofninum var að ræða og barnabætur hans vegna áranna 2017 0g 2018 voru lækkaðar úr rétt yfir 110.000 krónum á báðum árum niður í núll.

Þekkti hann ekki

Einn einstaklingur greiddi í nokkrum greiðslum um 16,5 milljónir króna inn á reikning mannsins og fyrirtæki í eigu umrædds einstaklings greiddi um 8,5 milljónir króna. Í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra sagðist maðurinn ekki vita hver þessi einstaklingur væri og gat enga skýringu gefið á greiðslunum.

Greiðandinn sagði að um hafi verið í flestum tilfellum að ræða gjafir en tók þó fram í þrjú skipti hafi verið um að ræða lán. Sagðist viðkomandi þekkja til mannsins og vita að kona hans væri veik og eitthvað hafi amað að hjá manninum. Því hafi viðkomandi lagt þessar fjárhæðir inn á reikning mannsins af góðmennsku einni saman.

Annar einstaklingur lagði 238.000 krónur inn á reiknings mannsins. Maðurinn sagðist heldur ekki vita hver þessi einstaklingur var en sá sagði peningana hafa verið gjöf.

Þriðji einstaklingurinn lagði alls 1,7 milljónir inn á reikning mannsins. Hann sagðist heldur ekki vita deili á þeim einstaklingi og gat engar frekari skýringar veitt. Umræddur einstaklingur svaraði aldrei fyrirspurn skattrannsóknarstjóra.

Fyrirtækin

Maðurinn sagðist heldur ekki þekkja til ýmissa fyrirtækja sem lögðu fé inn á reikning hans og gat engar skýringar veitt á greiðslunum.

Þegar kom að skýrslutöku hjá héraðssaksóknara vildi maðurinn meina að allar greiðslurnar hefðu verið lán. Aðspurður um hvers vegna hann hafi í engu getið lánanna á skattframtali sínu sagðist hann meðal annars ekki hafa verið „með gáfur til þess.“

Aðspurður um hvort hann hefði verið í einhverri sölustarfsemi sagðist maðurinn hafa verið „í einhverju“ og hefði verið að skipta gjaldeyri.

Fyrir Héraðsdómi Reykjaness sagðist maðurinn hafa verið á þessum þremur árum 2017, 2018, 2019 í fíkniefnaneyslu og ekkert unnið en þegið örorkubætur. Hann sagði einstaklinginn sem fyrst var nefndur og lagði honum til um 25 milljónir króna hafa að hans beiðni látið hann hafa peningana til að taka þátt í fjárfestingartækifæri. Síðastnefnda árið hafi kona hans fallið frá og hann að lokum flutt úr landi til að ná sér upp úr óreglunni. Reiðufjárinnborganir skýrði hann með því að hann hefði tekið 50.000 krónur af hverri einni milljón króna af gjaldeyri sem hann hefði skipt. Neitaði hann að gefa upp nöfn manna sem hann hefði skipt gjaldeyri fyrir. Loks skýrði hann hluta greiðslnanna með því að hann hefði þegið greiðslur fyrir að leyfa að fyrirtæki sem væru að fara í þrot yrðu skráð á hann.

Sagði maðurinn ekki hafa verið „með hausinn í lagi til að hugsa um einhver svona smáatriði. Sem mér fannst smáatriði, það getur vel verið að það sé stóratriði,“ þegar hann var spurður hvers vegna hann taldi ekki 25 milljóna króna lánin fram.

Viðurkenndi að þekkja mann

Fyrir dómi viðurkenndi maðurinn að hann sannarlega þekkti þann mann sem hafði lagt hefði honum til hæstu upphæðirnar, áðurnefndar samtals um 25 milljónir króna. Sagði hann manninn vera góðan mann sem vildi sér vel.

Umræddur maður sem lét hinum ákærða fjármunina í té bar vitni fyrir dómi og tók undir að um lán hefði verið að ræða en engir lánasamningar hefðu verið gerðir og hann ekki gengið á eftir því að fá féð endurgreitt vegna persónulega erfiðleika mannsins og veikinda konu hans. Hann hafi gert sér fulla grein fyrir að um áhættusama fjárfestingu væri að ræða. Aðspurður um hvers vegna hann hefði tjáð skattrannsóknarstjóra að um gjöf hefði verið að ræða en ekki lán sagðist maðurinn ekki alveg hafa vitað hvernig hannn ætti að svara skattalega. Lánanna var í engu getið á skattframtali vitnisins eða fyrirtækis hans.

Fleiri vitni sem höfðu látið manninn hafa peninga komu fyrir dóminn og misjafnt var hverjar uppgefnar ástæður fyrir greiðslunum voru en einn sagðist hafa vorkennt manninum. En í mörgum tilfellum var sagt að um lán hefði verið að ræða.

Ekki á neinum skattframtölum

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness er ítrekað að hvorki maðurinn né þeir einstaklingar og fyrirtæki sem áttu að hafa lánað honum hafi getið þessara greiðslna á skattframtölum sínum. Engir lánasamningar hefðu verið gerðar og ekki ein króna hefði verið greidd til baka.

Telur dómurinn þær skýringar að um lán hafi verið að ræða ekki vera trúverðugar í ljósi þess að engir samningar hafi verið gerðir, skýringar á hinu meinta fjárfestingaverkefni sem maðurinn hafi ætlað að nota peningana í hafi verið óljósar og frásagnir mannsins sem lagði til hæstu upphæðirnar hafi verið misvísandi. Hann hafi sagt eitt á rannsóknarstigi og annað fyrir dómi og það sama hafi hinn ákærði gert. Það sé sömuleiðis ótrúverðugt að hinir meintu lánveitendur hafi treyst manninum til að standa í skilum í ljósi þess að hann hafi verið í fíkniefnaneyslu og á örorkubótum á umræddu tímabili.

Þegar kom að greiðslum í reiðufé sagði dómurinn engin gögn styðja þá fullyrðingu að um greiðslur vegna gjaldeyrisskipta hafi verið að ræða. Ljóst sé að um tekjur hafi verið að ræða sem maðurinn hafi átt að telja fram til skatts. Hann var því sakfelldur. Í ljósi sakaferils hans, þess að rannsókn málsins hefði tekið langan tíma og persónulegra erfiðleika mannsins þótti við hæfi að dæma hann í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi og til að greiða um 41,5 milljónir króna í sekt.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Miðaði á dimmiterandi menntskælinga

Miðaði á dimmiterandi menntskælinga
Fréttir
Í gær

„Þetta er ekki aðeins fjárhagslegt áfall. Þetta hefur djúpstæð áhrif á líf fólks, andlega heilsu þeirra og framtíðarmöguleika“ 

„Þetta er ekki aðeins fjárhagslegt áfall. Þetta hefur djúpstæð áhrif á líf fólks, andlega heilsu þeirra og framtíðarmöguleika“ 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigurður Kári fór alltaf í kröfugöngu á 1. maí en segir skugga liggja yfir deginum í ár – „Með ólíkindum“

Sigurður Kári fór alltaf í kröfugöngu á 1. maí en segir skugga liggja yfir deginum í ár – „Með ólíkindum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Efling lætur Morgunblaðið heyra það – „Mikið óskaplega er þetta smámannleg fyrirsögn“

Efling lætur Morgunblaðið heyra það – „Mikið óskaplega er þetta smámannleg fyrirsögn“