Áhorf Match of the Day hefur tekið verulegan dýfu eftir að Gary Lineker yfirgaf þáttinn í kjölfar umdeildrar færslu á samfélagsmiðlum, samkvæmt frétt The Telegraph.
Lineker, 64 ára, var látinn fara frá BBC í maí eftir að hann birti Instagram-færslu um síonisma þar sem notast var við mynd af rottu, tákn sem nasistar notuðu til að lýsa gyðingum sem meindýrum. Færslan olli miklu fjaðrafoki og leiddi til ásakana um gyðingahatur.
Fyrrverandi landsliðsframherjinn viðurkenndi síðar mistök sín og þann sársauka sem hann olli og hefur staðfest að hann muni ekki snúa aftur til BBC til að stýra útsendingum frá FA-bikarnum eða Heimsmeistaramótinu 2026 í Norður-Ameríku, þrátt fyrir að hann hafi nýverið framlengt samning sinn.
Samkvæmt tölum The Telegraph hafa áhorfstölur Match of the Day fallið úr 2,68 milljónum í 2,39 milljónir að meðaltali á laugardagskvöldum miðað við sama tíma í fyrra.
BBC hefur ekki tjáð sig um málið, en margir telja að brottför Lineker, sem var andlit þáttarins í áratugi, hafi haft bein áhrif á vinsældir hans.