

Prinicipality-leikvangurinn í Cardiff hefur verið valinn til að vera vettvangur opnunarleiks EM 2028, en Wembley í London mun hýsa bæði undanúrslit og úrslitaleik mótsins sem UEFA hefur nú ákveðið að hefjist klukkan 17:00.
Mótið sem haldið verður í Englandi, Wales, Skotlandi og Írlandi og samanstendur af 24 liðum í 51 leik, hefst föstudaginn 9. júní 2028 og lýkur nákvæmlega mánuði síðar, sunnudaginn 9. júlí.
UEFA staðfesti jafnframt að gestgjafaþjóðirnar muni fá að spila sína leiki í riðlinum á heimavelli, að því gefnu að þær komist beint inn á mótið.
Fyrsti leikur Englands færi fram á Etihad-vellinum í Manchester og næstu tveir á Wembley. Írland, Skotland og Wales myndu spila í sínu heimalandi í Dublin, Glasgow og Cardiff.
UEFA hefur áður flýtt upphafstíma úrslitaleiks Meistaradeildarinnar í 17:00 og fylgir EM nú sömu stefnu.
Þrír leiktímar verða í boði á mótinu: 14:00, 17:00 og 20:00. Nákvæm dagskrá hvers leikdags verður birt eftir að dregið hefur verið í riðla árið 2027.