
Jeremy Doku, kantmaður Manchester City, hefði getað endað hjá Liverpool árið 2018 en allt kom fyrir ekki.
Doku, sem kom til City frá Rennes sumarið 2023 fyrir um 55 milljónir punda, hefur vakið mikla athygli með frammistöðu sinni undanfarið og skoraði til að mynda glæsilegt mark í 3-0 sigri City á Liverpool um helgina.
Belgíski landsliðsmaðurinn rifjaði upp þegar Liverpool reyndi að fá hann frá Anderlecht aðeins 15 ára gamlan. Þáverandi stjóri liðsins, Jurgen Klopp, fékk leyfi til að tala beint við leikmanninn og reyndi félagið allt til að sannfæra hann, þar á meðal með því að koma á fundum með Steven Gerrard, Gini Wijnaldum og Sadio Mane.
Doku sagði þó að Mane hafi ekki gert mikið til að sannfæra sig.
„Við ræddum mikið, en ekki endilega um fótbolta. Hann sagði mér að ég væri ungur og hefði nægan tíma. Hann sagði mér ekki að ég þyrfti að koma til Liverpool til að ná langt,“ sagði Doku.
„Liverpool sýndi mestan áhuga, en einnig Arsenal og Chelsea. Ég fór með foreldrum mínum í skoðunarferð um völlinn, æfingasvæðið og jafnvel skólann sem ég hefði gengið í. Ég fékk undirritaða Salah-treyju og hitti leikmennina.“
Að lokum ákvað Doku að vera áfram hjá Anderlecht og þróa sig þar í rólegheitum áður en hann fór síðar til Rennes og síðan Manchester City.