
Jude Bellingham segir að Trent Alexander-Arnold beri enn mikla ást til Liverpool þrátt fyrir kaldar móttökur frá stuðningsmönnum liðsins þegar hann sneri aftur á Anfield í gærkvöldi.
Liverpool lagði Real Madrid 1–0 í Meistaradeildinni með marki frá Alexis Mac Allister í síðari hálfleik. Leikurinn vakti ekki síst athygli fyrir þær sakir að Alexander-Arnold var að snúa aftur á gamla heimavöll sinn í fyrsta sinn frá því hann gekk til liðs við spænska félagið í sumar.
Þessi 27 ára gamli bakvörður, sem gekk til liðs við Real Madrid eftir að samningur hans við Liverpool rann út, kom inn á sem varamaður á 81. mínútu og var þá tekið á móti honum með háværu bauli frá stuðningsmönnum heimamanna.
Eftir leikinn var Bellingham, félagi hans hjá Real Madrid og samherji í enska landsliðinu, spurður út í viðbrögðin.
„Já, ég heyrði það. Þetta er bara hluti af fótboltanum. Ég held að baulið endurspegli ekki hvernig þeir í raun hugsa um hann. Þetta var frekar til að gefa sínu liði forskot og reyna að taka hann úr jafnvægi. Hann elskar klúbbinn, það veit ég vel eftir að hafa talað mikið við hann,“ sagði hann.