Sævar Atli Magnússon verður ekki meira með Brann á þessu tímabili eftir að hafa meiðst á hné í landsleik Íslands gegn Frakklandi fyrr í vikunni.
Framherjinn, sem gekk til liðs við Brann frá Lyngby í sumar, hefur verið frábær á tímabilinu og skorað tíu mörk í sextán leikjum. Hann þurfti að fara af velli rétt fyrir hálfleik vegna verkja í hné.
„Þetta er rosalega leiðinlegt og mér var brugðið yfir því hvað meiðslin voru umfangsmikil. En við erum með gott lið og ég mun styðja þá út tímabilið. Á meðan vinn ég hörðum höndum að því að koma enn sterkari til baka,“ segir Sævar við heimasíðu Brann.
Þetta þýðir þá auðvitað líka að Sævar verður ekki með íslenska landsliðinu gegn Aserbaísjan og Úkraínu í undankeppni HM í næsta mánuði.