Leikurinn gegn Lúxemborg er sá fyrri í þessum landsleikjaglugga en sá seinni er gegn Liechtenstein á mánudag. Ísland þarf nauðsynlega á sex stigum að halda úr þessum leikjum ef liðið ætlar að eiga einhvern möguleika á að fara á EM í gegnum undanriðilinn.
„Það verður gaman að mæta þeim aftur eftir stórslysið úti í Lúxemborg. Við þurfum að undirbúa okkur vel og ná fram einhvers konar hefndum,“ sagði Guðlaugur Victor við 433.is í dag en leikurinn úti í Lúxemborg í síðasta mánuði tapaðist 3-1.
„Sá leikur var bara stórslys og nú erum við að spila heima svo við ætlum að sýna og sanna að þetta hafi bara verið slys.“
Íslenska liðið lítur á báða leikina sem framundan eru sem skyldusigra.
„Við sögðum það líka fyrir síðasta glugga og ég er ekkert hræddur við að segja það aftur. Þetta eru skyldusigrar og ef við ætlum að eiga einhvern möguleika á að komast upp úr riðlinum þurfum við að vinna.“
Ítarlegra viðtal er í spilaranum.