Breiðablik er í ansi vænlegri stöðu eftir fyrri leikinn gegn Shamrock Rovers í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu.
Leikið var á Írlandi í kvöld þar sem Blikar voru sterkari aðili leiksins og unnu að lokum 0-1 sigur.
Það var varnarmaðurinn knái, Damir Muminovic sem skoraði eina markið með föstu skoti eftir aukaspyrnu Blika.
Blikar fengu þá aukaspyrnu fyrir utan teig Shamrock Rovers, var boltinn lagður til hliðar á Damir sem hamraði honum í netið.
Shamrock Rovers voru sterkari aðilinn fyrri hluta síðari hálfleiks en eftir það voru Blikar öflug færi og fengu færi til þess að skora en náðu ekki að nýta þau.
Síðari leikurinn fer fram eftir viku í Kópavogi en sigurvegarinn úr þessu einvígi mætir FCK frá Danmörku í næstu umferð.