Manchester United nálgast kaup á Andre Onana, markverði Inter og má ætla að þessi vika verði mikilvæg í samningsviðræðum.
Enska stórliðið hefur verið á eftir Onana undanfarnar vikur. Leikmaðurinn vill ólmur fara til United og hefur samið um eigin kjör.
Inter hefur hins vegar hafnað tveimur tilboðum United. Það seinna hljóðaði upp á 50 milljónir evra en það dugði ekki til.
Talið er að tilboð upp á 55 milljónir evra verði nóg til að sannfæra Inter. Mikil bjartsýni er á að samningar séu að nást.
Það varð ljóst um helgina að David De Gea er farinn frá Manchester United. Félagið mun því að öllum líkindum sækja sér nýjan aðalmarkvörð í sumar og er ekki ólíklegt að það verði Onana.
Erik ten Hag, stjóri United, vann með Onana í fimm ár hjá Ajax og þekkir hann því vel.
Hann veit vel að hann getur spilað út frá marki, eitthvað sem De Gea gerði ekki nógu vel. Talið er að það sé stór ástæða þess að Ten Hag vilji Onana til félagsins, en Kamerúninn átti frábært tímabil með Inter.
United bindur vonir við að fá Onana með sér í æfingaferð sína til Bandaríkjanna.