Það verða nokkrar íslenskar knattspyrnukonur í eldlínunni í Meistaradeild Evrópu í kvöld og á morgun.
Einni umferð er lokið af riðlakepninni. Hún telur fjóra fjögurra liða riðla.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir er á varamannabekk Paris Saint-Germain á útivelli gegn Real Madrid, en leikurinn hófst nú fyrir skömmu. Franska liðið tapaði fyrsta leik riðilsins gegn Chelsea.
Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur í Wolfsburg heimsækja í kvöld Slavia Prag. Þýsku meistararnir unnu fyrsta leik sinn í riðlinum auðveldlega, 4-0 gegn St. Pölten.
Á morgun tekur Juventus, lið Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, svo á móti hennar fyrrum félögum í Lyon. Juventus vann fyrsta leik sinn gegn Zurich.
Á sama tíma tekur Rosengard, með Guðrúnu Arnardóttur innanborðs, á móti Barcelona. Rosengard tapaði fyrsta leik sínum í riðlinum gegn Bayern Munchen, þar sem Íslendingarnir Cecilía Rán Rúnarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir leika.
Bayern mætir Benfica á útivelli annað kvöld.
Hér að neðan má sjá leiki íslensku leikmannanna í Meistaradeildinni í vikunni.
Í dag
16:45 Real Madrid – PSG
19:00 Slavia Prag – Wolfsburg
Á morgun
16:45 Juventus – Lyon
16:45 Rosengard – Barcelona
19:00 Benfica – Bayern Munchen
Það má horfa á Meistaradeild Evrópu á Youtube-rás DAZN.