fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Harður heimur nýtur sín í Lof mér að falla: Kærkomin árás á foreldrahjartað

Tómas Valgeirsson
Fimmtudaginn 30. ágúst 2018 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá upphafi íslenskrar kvikmyndaflóru hefur eymdin verið í ríkjandi burðarhlutverki. Þá fylgir alltaf þessi stimpill að meirihluti okkar framlaga einkennist af litlu öðru en neyslu, erjum, vanlíðan og tilheyrandi ofsadramatík.

Tímarnir hafa aðeins verið að breytast. Ýmist upprennandi kvikmyndagerðarfólk hefur lagt það að markmiði að þverbrjóta þessa reglu og sækja í nýja liti úr öskjunni. Þar á móti kemur Baldvin Z og faðmar vesaldóminn að sér eins og ekkert sé heilagra í okkar afþreyingarmenningu. En stærsti munurinn á úrvinnslu Baldvins frá flestum öðrum starfandi eymdarfíklum hefur þó legið í tilgerðarlausri einlægni svo úr verði meiri áhersla á bítandi raunsæi heldur en órgandi melódrama.

Þessi umrædda einlægni er án efa öflugasta vopnið sem Baldvin hefur, enda er Lof mér að falla einn pakkaður grautur af óþægindum með yfirvofandi volæði stráðu yfir og borinn fram jökulkaldur. Grautur þessi hefur það merka hlutverk að sýna unglingum hlutina ófegraða og ráðast á foreldrahjarta ófárra með stórum veruleikaspegli og þrumusparki, þó hún sé alls ekki laus við sinn sjarma heldur.

Í kvikmyndum Baldvins hefur þó yfirleitt verið pláss fyrir hlýju, upplífgandi mannúð og jafnvel húmor í annars hádramatískum sögum, en með þessari kann hann betur við myrkrið og finnur sig þar umhugsunarlaust í hráefninu sem í boði stendur. Leikstjórinn hefur brínt á sér klærnar og sækir bæði meðvitað og ómeðvitað í dramafíkla af meistaragráðu í líkingu við Darren Aronofsky, Lars von Trier og Lukas Moodyson. Það er ekki slæmur hópur til að vera kenndur við, þó umrædd þrenning sé eflaust ekkert voðalega hress í partíum.

Skilaboðasaga með meiru

Við upphaf sögunnar er hin sakleysislega Magnea á grunnskólaaldri og komin í vafasaman félagsskap, sem er leiddur af hinni eldri og (í augum Magneu) svalari Stellu. Spenna og tilfinningaflóð skákar að sjálfsögðu alla rökhugsun en áður en langt um líður eru nokkur fikt við hörð efni orðin að vandamáli í formi martraðarkennds mynsturs. Vinátta og tengsl stúlknanna prýðir alltaf forgrunninn en það líður ekki á löngu þangað til áhorfandinn er betur farinn að skynja eitrið í loftinu á milli þeirra.

Framvinda myndarinnar er minna í því að spyrja spurningarinnar „Hvað ætli fari úrskeiðis?“ – enda kemur það snemma í ljós og skoðar sagan meira „Hvernig?“-vinkilinn og „Með hvaða afleiðingum?“ Sagan leikur sér að tímalínunni nokkuð frjálslega og kynnumst við einnig þeim Magneu og Stellu á eldri árum, á sitt hvorum staðnum í lífinu en báðar háðar minningum og sárum sem þær losna ekkert við.

Bæði má líta á myndina sem eins konar karakterstúdíu og skilaboðasögu. Handritið í umsjón Baldvins og Birgis Arnars Steinarssonar stillir atburðarásinni upp sem samansafni minningarbrota og er mikil vinna lögð í að sitthvorar tímalínurnar þjóni hvorri annarri, bæði á tilfinningaskala og gegnum upplýsingar. Það sem heldur lífinu í báðum stúlkunum er hversdagslegi andinn sem yfir þeim svífur. Áreynslulausa kemistría þeirra Elínar Sif Haraldsdóttur og Eyrúnar Bjarkar Jakobsdóttur landar þessu einnig með trompi. Tekst þeim oft að segja mjög mikið með mjög litlu.

Litla Ísland og stórar tilviljanir

Það þýðir í sjálfu sér ekkert að kryfja hvern leikara fyrir sig í þessari mynd. Leikstjórinn hefur löngu sýnt sig færan um að geta náð fram nöktum tilfinningum úr liði sínu með einum fingrasmelli. Allir leikararnir með tölu eru sterkir en mest krefjandi þyngslin fær sitthvor túlkunin á Magneu, leikin af Elínu Sif og Kristínu Þóru Halldórsdóttur. Það telst líka til ákveðins sigurs að breyta Góa í eins tæran viðbjóð og hann leikur hér. Óviðkunnanlegri hefur hann ekki sést síðan Hringekjan hóf göngu sína um stutt skeið.

Lof mér að falla er vissulega feykilöng kvikmynd (mögulega sú lengsta í íslenskri kvikmyndasögu) en fyllir upp í hverja mínútu þegar farið er yfir eins víðan völl og hér. Á hinn bóginn hafa handritshöfundar þurft að vinna sig í kringum ákveðnar handritsgildrur (sem best mætti lýsa sem krassandi tilviljanir) sem smækka heim myndarinnar frekar en að gera hið öfuga. En á litla Íslandi gengur það svo sem upp á sinn hátt.

Af gríðarlegri nærgætni tekst Lof mér að falla á við þemu um áhrifagirni, traust, taumhaldsleysi, hringrás, unga ást, óhjákvæmileg uppgjör og munar öllu að erfiðari kaflarnir skila sínu án fyrirlestra. Það ríkir mikil umhyggja fyrir persónunum í handritinu, með auknu tilliti teknu til þess að leyfa minni karakterum að brennimerkja söguna jafnt og stærri. Til að gera gott enn betra fáum við frábæra tónlist og úthugsaða kvikmyndatöku sem fangar ákveðna fegurð í ljótleikanum.

Augljóslega er ekki mælt með þessari mynd sem skemmtiáhorfi. En á móti er um að ræða þrælmagnaða ræmu sem skoðar (því miður) hversdagslegan veruleika með vandaðri samsetningu og sálina ávallt í forgangi. Besta ráðið er að halla sér aftur og taka á móti eymdinni opnum örmum, því hérna er auðvelt að verða háður henni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Í gær

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna