fbpx
Þriðjudagur 11.febrúar 2025
Pressan

Verkefnið sem kom mönnum til tunglsins

Pressan
Sunnudaginn 2. febrúar 2025 17:30

Stórt skref Neil Armstrong á tunglinu. Mynd: Wikimedia Commons

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú er rúmlega hálf öld liðin frá því að Neil Armstrong steig fyrstur manna fæti á tunglið. Þetta var auðvitað sögulegur atburður enda í fyrsta sinn sem maður steig fæti á annan klett en jörðina okkar. Armstrong og Edwin Aldrin fóru til tunglsins með Apollo 11. Lendingin var hluti af Apollo-verkefni bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA og var það einnig stór sigur fyrir Bandaríkin í því mikla áróðursstríði sem var háð við Sovétríkin á þessum tíma en þá stóð kalda stríðið sem hæst. En það er eitt og annað varðandi þessa merku ferð Apollo 11 og annarra geimfara til tunglsins sem ekki er á allra vitorði.

Geimferðirnar og verkefnið allt í heild sinni var mikil prófraun fyrir hugrekki manna og hugvit en mörg vandamál þurfti að leysa og yfirstíga til að allt gengi upp. Margar samsæriskenningar hafa orðið til í tengslum við þetta mikla afrek, misgáfulegar, og hafa margar þeirra lifað áratugum saman. Einna hæst ber kannski kenningin um að allt hafi þetta verið sviðsett og að í raun hafi menn aldrei stigið fæti á tunglið, þetta hafi bara verið gert í kvikmyndaveri og heimsbyggðin blekkt í bak og fyrir. Ef það væri rétt væri það eitt og sér mikið afrek að hafa fengið þær mörg þúsund manneskjur sem unnu að verkefninu til að þegja um það alla tíð og auðvitað hefði það einnig verið ótrúlegt afrek að geta sviðsett þetta allt á þann hátt að fólk trúði þessu. En eins og flestir vita væntanlega var ekki um sviðsetningu að ræða heldur var einfaldlega farið til tunglsins.

Þrír fræknir Neil Armstrong, Michael Collins og Edwin E. Aldrin Jr.

Hér á eftir verða nefnd til sögunnar nokkur atriði varðandi Apollo-verkefnið sem ekki eru á allra vitorði.
Fyrst ber að nefna að bandaríska geimferðastofnunin var undir það búin að eitthvað gæti farið úrskeiðis á tunglinu sem yrði til þess að geimfararnir kæmust ekki aftur heim. Af þeim sökum var ræða skrifuð fyrir Richard Nixon forseta sem bar heitið „In the Event of Moon Disaster“ (Ef tunglferðin mistekst) sem hann átti að lesa upp í sjónvarpi ef geimfararnir sætu fastir á tunglinu. Einnig var gerð viðbragðsáætlun. Samkvæmt henni átti að rjúfa samskipti stjórnstöðvar NASA við geimfarana. Nixon átti að hringja í verðandi ekkjur þeirra og síðan flytja eftirfarandi ræðu:

„Örlögin hafi skipast þannig að mennirnir sem fóru til tunglsins til að rannsaka það á friðsamlegan hátt munu munu bera beinin þar og hvíla þar. Þessir hugrökku menn, Neil Armstrong og Edwin Aldrin, vita að engin von er til að hægt verði að bjarga þeim. Þeir vita einnig að í fórn þeirra felst von fyrir mannkynið.

Þessir tveir menn fórna lífi sínu fyrir göfugasta markmið mannkynsins: Að leita sannleikans og öðlast skilning. Þeir verða syrgðir af fjölskyldum sínum og vinum, þeir verða syrgðir af samlöndum sínum, þeir verða syrgðir af fólki um allan heim, jörðin okkar mun syrgja þá, jörðin sem þorði að senda tvo syni sína út í það ókunnuga. Í könnunarferð sinni fengu þeir jarðarbúa til að finnast þeir vera eitt, með fórn sinni binda þeir bræðralag manna enn sterkari böndum.

Áður fyrr horfði fólk til himins og sá hetjur sínar í stjörnumerkjunum. Í nútímanum gerum við eiginlega það sama en hetjur okkar eru hetjur af holdi og blóði. Aðrir munu fylgja í kjölfar þeirra og örugglega snúa heim aftur. Leit okkar verður ekki stöðvuð. En þessir menn voru þeir fyrstu og þeir munu vera fremst í hjörtum okkar. Sérhver manneskja sem horfir til himins að næturlagi í framtíðinni mun vita að þar er smá blettur þar sem mannkynið mun vera til eilífðar.“

Magnaður staður tunglið í allri sinni dýrð.

Lyktin

Geimfararnir fundu sérstaka lykt á tunglinu. Schmitt, síðasti maðurinn til að ganga á tunglinu, sagði að geimförunum hafi fundist lyktin vera eins og af notuðu byssupúðri en hafi samt ekki verið málmkennd eða sýrukennd. Tengingin við byssupúður hafi líklegast verið ofar í huga þeirra en önnur lykt. Síðar var sú skýring sett fram að lyktin hefði verið viðbrögð nefsins við mjög svo rafhlöðnu rykinu á tunglinu og telur Schmitt að svo sé en hann er sjálfur vísindamaður.

Tollskýrsla

Þegar geimfararnir þrír, sem fóru með Apollo 11 til tunglsins, sneru aftur til jarðar skiluðu þeir inn innflutningsskýrslu til bandarískra tollyfirvalda. Þeir höfðu einmitt meira meðferðis en þegar þeir yfirgáfu jörðina því þeir tóku mikið magn af grjóti og ryki með heim frá tunglinu. Í raun og veru þurftu þeir ekki að gera þetta en þetta var smá brandari á milli NASA og tollyfirvalda. En innflutningsskýrslan var fyllt út skömmu eftir að geimfararnir lentu í Kyrrahafinu.

Feyktu fánanum um koll

Þegar Örninn, lendingarfar Neils Armstrong og Edwins Aldrin, hóf sig til flugs frá tunglinu feykti útblásturinn frá mótorum þess bandaríska fánanum, sem þeir félagar höfðu stungið niður, um koll. Í kjölfarið gættu aðrir geimfarar þess að stinga fánanum niður í meiri fjarlægð frá lendingarförunum. Því hefur verið haldið fram að sólvindar hafi séð til þess að fánarnir blöktu næstum við hún en svo er ekki. Í þá voru settar stangir sem áttu að halda þeim beinum út frá stönginni.

Sagan skrifuð Geimfari snertir tunglið.

Penninn bjargaði þeim

Þegar Armstrong og Aldrin fóru aftur inn í lendingarfarið Örninn rakst Armstrong óvart í útsláttarrofann. Það var fyrirferðarmikið súrefniskerfið á baki hans sem rakst í rofann og braut hann. Rofinn var lífsnauðsynlegur því hann ræsti mótora lendingarfarsins en þeir áttu að koma því upp til móts við sjálft geimfarið sem hafði flutt þá frá jörðinni og átti að koma þeim þangað aftur. Þetta leit ekki vel út því brotni rofinn gat orðið til þess að þeir gætu ekki ræst mótorana og sætu því fastir á tunglinu. Aldrin greip þá til sinna ráða og fann penna og notaði hann í stað rofans og náði að ræsa mótorana. Fyrir áhugasama má geta þess að penninn er nú til sýnis á Museum of Flight í Seattle.

Trúði á geimverur

Edgar Mitchell, sem var við stjórnvölinn í Apollo 14, var ekki feiminn við að skýra frá því að hann teldi 90% líkur á því að margar þeirra tilkynninga sem bárust um óþekkta fljúgandi furðuhluti ættu við rök að styðjast og að þar væru vitsmunaverur frá öðrum plánetum á ferð. Hann gaf í skyn að hann hefði hitt erlenda embættismenn sem hefðu persónulega reynslu af geimverum og hefðu hitt slíkar verur. Einnig gaf hann í skyn að stjórnvöld væru að hylma yfir þetta. Hann sagði þó alltaf að hann hefði aldrei sé fljúgandi furðuhlut og hefði aldrei verið hótað vegna ummæla sinna og að allt væru þetta hans persónulegu skoðanir.

Upprunalegu upptökurnar eru týndar

Upprunalegu upptökurnar af lendingu Apollo 11 hafa verið týndar áratugum saman auk mörg hundruð kassa með tölvugögnum varðandi geimferðina. Þetta hefur að vonum ýtt við samsæriskenningasmiðum sem hafa sumir hverjir haldið því fram að þetta sanni að Sovétmenn hafi stolið upptökunum eða að þær hafi verið eyðilagðar af því að þær sanni að lendingin hafi verið sviðsett.

Þegar 40 ár voru liðin frá lendingu Apollo 11 tilkynnti alþjóðlegur hópur, sem var að reyna að finna upptökurnar, að hann teldi að óvart hafi verið tekið yfir þær. En hópurinn hafði fundið afrit af upptökunum sem voru betri að gæðum en þær upprunalegu. NASA hefur birt þrjár klukkustundir af þessum upptökum.

Geimsýning Hér má sjá svipmynd af geimsýningu á Smithsonian Air and Space-safninu í Washington. Mynd: Getty Images

Límbandið kom að gagni

Eins og gefur að skilja er tæknin hjá NASA háþróuð og mikil vinna og vísindi liggja að baki geimferðum enda ekki einfalt mál að senda geimfar út í geiminn og hvað þá að senda menn til tunglsins. Þegar Gene Cernan og Jack Schmitt, sem voru tveir síðustu mennirnir til að ganga á yfirborði tunglsins, voru þar í desember 1972 urðu þeir að grípa til óvenjulegra og ekki svo tæknilegra aðgerða til að gera við tunglbílinn sem þeir höfðu meðferðis. Þeir lentu í dal, sem er umkringdur fjöllum og stórum klettum, hrauni og tunglryki. Allt var þetta með ráðum gert til að hægt væri að kanna þetta magnaða landslag. En það var svo margt athyglisvert þarna að þeir voru sendir með tunglbíl með til að auðvelda þeim yfirferð um dalinn. En þegar þeir ætluðu að nota bílinn kom í ljós að aurhlíf að aftan var skemmd. Án hennar hefði bíllinn þeytt ryki upp af yfirborðinu og hefði það getað hindrað útsýni geimfaranna og í versta falli valdið skemmdum á lendingarfarinu. Þetta leystu þeir félagar með fjórum landakortum og límbandi og bjuggu til nýja aurhlíf með þessum lágtækniútbúnaði.

CIA kom að verkefninu

Samsæriskenningasmiðir hafa lengi haldið því fram að bandaríska leyniþjónustan, CIA, hafi látið sviðsetja tunglferðirnar og lendingarnar þar til að gera lítið úr Sovétríkjunum. Það er ekki rétt eins og flestir vita, en CIA hafði samt sem áður fingur í verkefninu enda var það mjög mikilvægt í áróðursskyni.
CIA komst að því að Sovétmenn voru að undirbúa geimferð til tunglsins í árslok 1968. Fljúga átti í kringum tunglið en ekki lenda þar. Vegna þessara upplýsinga var fyrirætlunum breytt og var Apollo 8 látinn fara á braut um tunglið í stað þess að fara bara á braut um jörðina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Tímavélin: Óhugnaður á íslenskum sveitabæ – Tekinn af foreldrum sínum og sendur beint í greipar níðings

Tímavélin: Óhugnaður á íslenskum sveitabæ – Tekinn af foreldrum sínum og sendur beint í greipar níðings
Pressan
Fyrir 2 dögum

Bæði kynin dragast að klámi

Bæði kynin dragast að klámi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Svona getur kaffi örvað efnaskiptin

Svona getur kaffi örvað efnaskiptin
Pressan
Fyrir 3 dögum

Henti handklæðunum í vél – Áttaði sig á mistökunum þegar vélin var búin

Henti handklæðunum í vél – Áttaði sig á mistökunum þegar vélin var búin