fbpx
Fimmtudagur 13.nóvember 2025
Pressan

Epstein-málið veldur enn einu fjaðrafokinu – Níðingurinn baktalaði forsetann hressilega í tölvupóstum

Pressan
Fimmtudaginn 13. nóvember 2025 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stór gagnapakki var birtur í gær í tengslum við mál níðingsins Jeffrey Epsteins. Fyrst og fremst er um að ræða tölvupósta. Demókratar í eftirlitsnefnd Bandaríkjaþings hófu gleðina í gær með því að birta þrjá handvalda tölvupósta þar sem Trump bregður fyrir. Repúblikanar í nefndinni svöruðu fyrir þetta með því að birta rúmlega 20 þúsund skjöl. Fjölmiðlar og aðrir hafa undanfarinn sólarhring legið yfir gögnunum og hefur margt þar vakið athygli.

Augljós vinslit

Ljóst er að vinslit Epsteins og Trump voru raunveruleg. Níðingurinn veigraði sér ekki við að baktala fyrrum vin sinn í samskiptum við aðra eftir að Trump bauð sig fram til forseta, sem og eftir að hann tók embætti í fyrra skiptið, en áður en Epstein var handtekinn og hnepptur í gæsluvarðhald sumarið 2019. Níðingurinn svipti sig lífi rúmum mánuði eftir handtökuna.

„Það er engin spurning að yfirlýsing Donalds var asnaleg,“ sagði Epstein í tölvupósti sem hann sendi þáverandi blaðamanni New York Times í janúar árið 2018. Þar vísaði Epstein til viðbragða forsetans við bók sem Michael Wolff hafði ritað um hann. Epstein bætti svo við: „Snemmtæk elliglöp?“

Epstein sendi tölvupóst til fyrrum ráðgjafa Barack Obama í desember 2018 þar sem hann sagði: „Þú gætir viljað segja vinum þínum í demókrataflokknum að með því að koma fram við Trump eins og mafíósa er verið að horfa framhjá því að hann er með mikil og hættuleg völd. Að herða hengingarólina of hægt hefur hættu í för með sér. Gambino [þekktur mafíósi á sjötta áratug síðustu aldar] var aldrei þjóðhöfðingi og það var lítið sem Gambino gat gert þegar þrengdi að honum. Það á ekki við um þennan brjálæðing [Trump].“

Dæmin um baktalið eru mýmörg. „Má bjóða þér mynd af Donald með stelpum í bikiní sem er tekin í eldhúsinu mínu,“ sendi hann á blaðamann New York Times eftir að Trump hafði tilkynnt um forsetaframboð sitt árið 2015.

Árið 2018 sendi Epstein skilaboð til fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Larry Summers, og sagði Trump á mörkum þess að vera geðveikur, og sagði annað eins við áðurnefndan blaðamann NYT: „Donald er fokking vitfirringur. Ég sagði þér það“. Eins skrifaði níðingurinn í tölvupóstum að hann væri meðvitaður um að Trump væri spilltur, að Trump hafi vitað um „stúlkurnar þar sem hann bað Ghislaine um að hætta“.

Tölvupósturinn sem vakið hefur mesta athygli er frá apríl árið 2011. Þar sendi Epstein á samverkakonu sína Ghislaine Maxwell: „Ég vil að þú áttir þig á því að hundurinn sem hefur ekki gelt er Trump. [Nafn þolanda] eyddi klukkustundum með honum heima hjá mér… hann hefur aldrei verið nefndur á nafn. Lögreglustjórinn o.s.frv. ég 75 prósent þar.“

Óheppileg tímasetning

Hvíta húsið upplýsti í gær að þolandinn sem um ræðir sé Virginia Giuffre, þekktasti þolandi Epstein sem svipti sig lífi í apríl á þessu ári. Hvíta húsið sakar demókrata um að hafa falið nafn Giuffre til að láta forsetann líta illa út en Giuffre hefur aldrei haldið því fram að forsetinn hafi misnotað hana. Þvert á móti sagðist hún hafa unnið fyrir hann í Flórída og hann hafi almennt komið vel fram við hana.

CNN segir tölvupóstana vekja enn og aftur upp spurningar um hvað Trump vissi um glæpi Epsteins og hvenær hann vissi það. Eins sé það athyglisvert að af samskiptum Maxwell og Epstein megi ráða að þau töldu sig hafa upplýsingar um Trump sem gætu komið honum illa, upplýsingar sem væri hægt að nota sem samningstæki. New York Times bendir á það sama, enda hafi Epstein lýst því svo í einum skilaboðum sínum að hann væri maðurinn sem gæti fellt Trump.

Eins og áður hefur komið fram segir embætti forsetans, Hvíta húsið, að ekkert athugavert komi fram í þessum gagnapakka og séu demókratar að gera úlfalda úr mýflugu. Trump hefur sjálfur kallað þetta storm í vatnsglasi á samfélagsmiðlum.

Á sama tíma hefur fulltrúadeild Bandaríkjaþings verið að taka fyrir kröfu demókrata um að öll skjöl í tengslum við Epstein-málið verði birt opinberlega, en nokkrir repúblikanar hafa stokkið á vagninn með stjórnarandstöðunni og farið fram á að atkvæði verði greidd um kröfuna. Þetta er í raun táknrænn gerningur enda telst nánast öruggt að ef krafan kemst í gegnum fulltrúadeildina muni hún daga uppi hjá öldungardeildinni og auk þess hefur Trump neitunarvald. Hins vegar geti það komið illa út fyrir forsetann að þurfa persónulega að beita sér gegn birtingu gagnanna enda hafa margir stuðningsmenn hans lengi kallað eftir þeim. Því er forsetinn nú að þrýsta á þá repúblikana sem styðja birtinguna að kjósa heldur gegn henni. Tímasetningin þykir óheppileg í ljósi gagnanna sem voru birt í gær.

Trump hefur sakað demókratana um að vera enn og aftur að nota mál Epsteins sér til framdráttar, að þessu sinni til að beina athyglinni frá því að flokkurinn hafi stöðvað allan ríkisrekstur í rúman mánuð með tilheyrandi tjóni fyrir kjósendur.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Fór út um morguninn að bera út blaðið og kom svo að fjölskyldu sinni látinni – Martröðin var samt bara rétt að byrja

Fór út um morguninn að bera út blaðið og kom svo að fjölskyldu sinni látinni – Martröðin var samt bara rétt að byrja
Pressan
Fyrir 2 dögum

Ráðgáta í Frakklandi: Var að grafa fyrir sundlaug við heimili sitt þegar hann datt í lukkupottinn

Ráðgáta í Frakklandi: Var að grafa fyrir sundlaug við heimili sitt þegar hann datt í lukkupottinn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Ungur maður nauðgaði ókunnugri konu á sextugsaldri á almannafæri því hann var hreinn sveinn

Ungur maður nauðgaði ókunnugri konu á sextugsaldri á almannafæri því hann var hreinn sveinn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Andrew fyrrum Bretaprins fékk vændiskonur í Buckinghamhöll – Og mamma hans hylmdi yfir það

Andrew fyrrum Bretaprins fékk vændiskonur í Buckinghamhöll – Og mamma hans hylmdi yfir það