
Nokkrir stuðningsmenn Donald Trump Bandaríkjaforseta, úr svokallaðri MAGA-hreyfingu, sitja nú eftir með sárt ennið eftir að hafa lent í netsvikum. Þessir aðilar styrktu vefsíðu sem lofaði því að afhjúpa gagnrýnendur áhrifavaldsins Charlie Kirk sem var banað þann 10. september síðastliðinn.
Vefsíðan kallaðist: Afhjúpum morðingja Charlie Kirk (e. Expose Charlie’s Murderers) og fór síðan í loftið fáeinum klukkustundum eftir voðaverkið. Vefsíðan sagðist ætla að afhjúpa þá sem hafa gagnrýnt Charlie Kirk, en til að þetta gæti orðið að veruleika þyrfti að afla fjármagns, enda þyrfti að koma á fót sérstöku kerfi sem væri ónæmt fyrir „árásum vinstrimanna“. Var þeim sem vildu styrkja verkefnið bent á að nota rafmynt. Tókst vefsíðunni að safna rúmlega 30 þúsund dölum, eða rúmlega 3,7 milljónum króna. Sögðust nafnlausu aðilarnir á bak við vefsíðuna þurfa rafmynt því til stæði að vinna með stórfyrirtækjum í tæknigeiranum og slíkt væri ekki ókeypis.
„Orðspor okkar er í húfi. Fólkið á bak við verkefnið eru aðgerðarsinnar sem hafa unnið fyrir stóra flokka og frambjóðendur. Hví ættum við að stofna starfi okkar í hættu fyrir smávæga útborgun?“
Síðan hvarf vefsíðan og samfélagsmiðlar tengdir henni hafa ekki verið virkir síðan 23. september. Þykir mörgum ljóst að þarna var um svik að ræða og að þó nokkrir MAGA-liðar hafi fallið fyrir þeim.
Þeir sem töpuðu pening í svikunum eru eðlilega sárir og hafa lýst yfir vonbrigðum á samfélagsmiðlum.
„Ég vil fá framlagið mitt til baka,“ skrifar einn. „Þið eruð að misnota andlát Charlie til að afla ykkur fylgjenda og gróða,“ skrifar annar.
Áður en vefsíðan hvarf höfðu þó birst upplýsingar um nokkra aðila sem höfðu gagnrýnt Kirk á netinu. Sumir þessara einstaklinga misstu vinnu sína í kjölfarið.
Independent greinir frá