Þegar hin tólf ára gamla Peyton Lautner fékk boð um að gista hjá vinkonu sinni í tilefni af afmæli hennar þann 30. maí 2014 þá grunaði hana sennilega ekki að uppi væri ráðabrugg um að hún myndi ekki lifa nóttina af.
Gleðskapurinn hófst með hefðbundnum hætti. Leutner mætti heim til vinkonu sinnar Morgan Geyser, í borginni Waukesha í Wisconsin-fylki, og hitti þar fyrir þriðju vinkonuna, Anissa Weier. Stúlkurnar fóru að leika sér, spila tölvuleiki, borða nammi og snakk og horfa á sjónvarpið.
Þær fóru síðan þrjár að sofa, frekar snemma, og svaf Leutner vært á meðan vinkonur hennar ákváðu að fresta morðinu til morguns. Morguninn eftir ákváðu stúlkurnar, að loknum morgunverði, að fara að leika sér í nærliggjandi skógi og þar létu Geyser og Weier til skara skríða.
Þær ákváðu að fara í feluleik og endaði Lautner með að fela sig undir laufhrúgu. Að áeggjan Weier dró Geyser upp eldhúshníf sem hún hafði tekið heiman frá sér og réðst á laufhrúguna og stakk hina 12 ára gömlu vinkonu sína nítján sinnum.
Málið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma og hefur í seinni tíð orðið þekkt sem Slender Man-árásin. Geyser og Weier áttu það nefnilega sameiginlegt að heillast af allskonar furðusögum á og ein þeirra var sagan af hinum hrollvekjandi Slender Man sem átti meðal annars að herja á og ræna börnum. Um var að ræða persónu sem sköpuð hafði verið á vefsíðunni Creepypasta sem nýtur nokkurra vinsælda meðal aðdáenda hryllingssagna. Geyser og Weitner höfðu orðið hugfangnar af persónunni og þráðu það að gerast að handbendi hans.
Komust þær að þeirri niðurstöðu að besta leiðin til þess væri að drepa sameiginlega vinkonu sína, Peyton Lautner.
Geyser var síðar greind með geðklofa og í fjölskyldu hennar var löng saga um geðræna kvilla. Skilin á milli ímyndunar og veruleika voru óljós í hennar huga. Það sama gilti þó ekki um Weier sem glímdi þó við þunglyndi og vanlíðan í kjölfar skilnaðar foreldra hennar. Hún átti síðar eftir að játa að hún gerði sér fullkomlega grein fyrir að Slender Man var ekki raunverulega til.
Vinkonurnar skildu Lautner eftir til að deyja þennan örlagaríka dag en annað átti eftir að koma á daginn. Lautner var helsærð eftir árásina en þrátt fyrir það tókst henni að skríða út úr skóginum og kalla á hjálp. Var hún flutt með hraði á sjúkrahús þar sem tókst að bjarga lífi hennar með naumindum.
Vinkonurnar ofbeldisfullu voru í kjölfarið handteknar. Weier brotnaði gjörsamlega niður í haldi lögreglu en Geyser var ísköld og pollróleg, eiginlega tilfinningalaus.
Að endingu voru báðar stúlkurnar dæmdar til langrar vistar á geðsjúkrahúsi. Geyser hlaut 40 ára dóm en Weier var dæmd til slíkrar vistar í 25 ár.
Geyser er enn læst inni á stofnun en Weier var til fyrirmyndar í sinni vist og fékk frelsi í skrefum. Fyrst með því að flytja undir gps-eftirliti til föður síns en síðan var eftirlitstækið fjarlægt á síðasta ári. Hún sætir enn reglubundnu eftirliti en lögfræðingur hennar hefur sagt að hann sé bjartsýnn um að innan tíðar verði hún alveg frjáls ferða sinna.