TV2 segir að vísindamenn við Álaborgarháskóla hafi gert rannsóknina í samvinnu við erlenda starfsbræður sína.
Tine Jess, sem vann að rannsókninni, sagði í samtali við TV2 að hugmyndir hafi lengi verið á lofti um að D-vítamín dragi úr líkunum á að fá krabbamein.
„Það byltingarkennda í þessu er að áhrifin fara í gegnum örveruflóru þarmanna og því næst í gegnum ónæmiskerfið og hafa áhrif á líkurnar á að fá krabbamein. Við þekktum áður til áhrifa ónæmiskerfisins en það að þetta fari í gegnum örveruflóru þarmanna er ný vitneskja,“ sagði hún.
Rannsóknin samanstendur af tilraunum á músum og greiningu á gögnum úr danska heilbrigðiskerfinu.
Rannsóknin leiddi í ljós að mýs, sem fengu D-vítamínríkan mat, voru með meiri mótstöðu gegn krabbameini.
Rannsakað var hvort þessi niðurstaða músarannsóknanna ætti einnig við um fólk og það var niðurstaðan eftir að farið hafði verið yfir sjúkraskrár 1,5 milljóna Dana.