Þetta er meðal þess sem kemur fram í árlegri skýrslu Copernicus, sem er loftslagsstofnun ESB, um stöðu loftslagsmála. Skýrslan heitir „European State of the Climate“.
Síðasta ár var eitt hlýjasta ár sögunnar í Evrópu síðan mælingar hófust. Þetta gildir ekki einungis um hita á landi því sjávarhitinn var einnig hærri en nokkru sinni áður.
Copernicus segir að þetta geti haft miklar afleiðingar fyrir fólk, dýr og náttúruna. Flóð höfðu áhrif á 1,6 milljónir manna og stormar á 550.000 manns. Gróðureldar höfðu áhrif á líf 36.000 manns.
151 lét lífið af völdum veðurs í Evrópu á síðasta ári.
Hinn hái sjávarhiti, sem var sérstaklega hár frá maí og fram í október, hafði mikil áhrif á lífið í hafinu og á fjölbreytileika vistkerfisins.
Hár hiti og öfgaveður kosta einnig skildinginn og nam kostnaðurinn sem svarar til 2.000 milljarða íslenskra króna á síðasta ári. 81% af upphæðinni er tilkomin vegna flóða.
Úrkoman á síðasta ári var 7% meiri en í meðalári.
Ástandið var sérstaklega slæmt á norðurheimsskautasvæðinu en þar hefur hitinn hækkað þrisvar sinnum hraðar á síðustu áratugum en annars staðar á jörðinni. Þetta hefur mikil áhrif á ísþekjuna, sífrerann og vistkerfin.