Vísindamennirnir voru í hvalaskoðunarferð þegar þeir sáu „stórt kúkaský“ lita sjóinn. Þetta virtist hjálpa búrhvölunum við að koma í veg fyrir árás að minnsta kosti 30 háhyrninga. ABC News skýrir frá þessu.
Jennah Tucker, sjávarlíffræðingur, var í umræddri ferð. Í samtali við ABC sagði hún að þegar hvalirnir kúka þá lemji þeir stórum sporði sínum í gegnum kúkinn til að hrekja árásaraðilana á brott eða til að rugla þá í ríminu.
Þar sem uppistaðan í fæðu búrhvala er smokkfiskur þá er kúkur þeirra rauðleitur.
Í umræddu atviki þá mynduðu hvalirnir hring þar sem höfuð þeirra voru í miðjunni. Síðan lömdu þeir sporðum sínum í sjóinn og mynduðu „kúkaský“ sem kom háhyrningunum í opna skjöldu og hrakti þá á brott.