Venjulega eru ferðatöskur fullar af fatnaði og minjagripum en Indverjarnir sex höfðu safnað að sér heldur óvenjulegum gripum á ferð sinni um Taíland.
The Guardian segir að samkvæmt upplýsingum frá taílenskum tollyfirvöldum þá hafi mennirnir reynt að smygla 87 dýrum ólöglega úr landi.
Meðal þessara dýra voru fuglar, slöngur, eðlur, apar og rauð panda.
Taíland er þekktur viðkomustaður dýrasmyglara og eru dýrin oft seld til Kína eða Víetnam. Eru þeir oft með dýr annars staðar úr heiminum með í för. Á síðustu árum hefur smygl til Indlands færst í vöxt.
Að sögn yfirvalda hafa dýr frá Suður-Ameríku og Himalaya verið meðal þeirra dýra sem reynt hefur verið að smygla í gengum Taíland að undanförnu.
Ef Indverjarnir verða fundnir sekir um smygl eiga þeir allt að tíu ára fangelsi yfir höfði sér eða sekt sem nemur fjórföldu verðmæti dýranna sem þeir reyndu að smygla.