fbpx
Þriðjudagur 05.desember 2023
Pressan

Hvar er Jennifer? Ekkert hefur spurst til hennar í 17 ár – Eina vísbendingin er kornótt upptaka af óþekkjanlegum einstaklingi

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 18. nóvember 2023 22:30

Jennifer Kesse

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2006 hvarf hin 24 ára gamla Jennifer Kesse frá heimili sínu í Orlando í Flórída og ekkert hefur til hennar spurst síðan. Kvöldið 24. janúar 2006 voru vinir og fjölskylda Kesse þegar farnir að dreifa miðum, þar sem óskað var eftir upplýsingum um dvalarstað hennar, eftir að ekkert hafði spurst til hennar síðan snemma morguns sama dag. Daginn eftir voru fréttir af hvarfi hennar komnar um allt land.

Áður en hún hvarf virtist Kesse hafa allt: ástríka fjölskyldu og kærasta, frábært starf og enga ástæðu til að skilja við líf sitt og hverfa. Ástvinir hennar gerðu eðlilega ráð fyrir að eitthvað hræðilegt hlyti að hafa komið fyrir hana. Og halda það enn þann dag í dag. En 17 árum eftir hvarf hennar hafa rannsóknarlögreglumenn enn ekki náð miklum árangri í máli Kesse.

„Við erum ekki með nein svör,“ segir móðir hennar, Joyce Kesse.

Eina vísbendingin um hvað varð um Kesse er kornótt myndbandsupptaka af einstaklingi. 

Svo hvað varð eiginlega um Jennifer Kesse árið 2006?

Jennifer ásamt foreldrum sínum og bróður

Kesse var 24 ára þegar hún hvarf og líf hennar virtist ágætt í alla staði. Hún var í föstu starfi sem fjármálastjóri hjá Central Florida Investments Timeshare Company í Ocoee, Flórída, og hún var nýbúin að kaupa sér íbúð nálægt vinnustaðnum. Kesse og kærasti hennar, Rob Allen, voru nýkomin úr fríi á Bandarísku Jómfrúaeyjunum. Líf hennar virtist fullkomið.

Kvöldið áður en hún hvarf kom Kesse heim úr vinnu um kl. 18 og spjallaði við fjölskyldu sína í síma. Hún hringdi í kærastann seinna um kvöldið um 22, áður en hún ætlaði að fara að sofa. Kærastinn Allen var síðasti maðurinn í innsta hring Kesse til að vera í sambandi við hana. Algengt var að Kesse hringdi eða sendi skilaboð til kærasta síns þegar hún var að fara í vinnuna, en engin skilaboð bárust til hans morguninn eftir, þann 24. janúar. Allen varð því áhyggjufullur og gerði nokkrar tilraunir til að ná sambandi við kærustu sína, en skilaboðum hans var ekki svarað og símtöl fóru beint í talhólf.

Samstarfsmenn hennar fóru líka að velta fyrir sér hvers vegna þeir hefðu ekki heyrt frá henni. Það var ólíkt henni að hringja ekki og láta vita af sér ef henni seinkaði eða hún væri veik,  og hún hafði misst af mikilvægum morgunfundi.

Klukkan 11 hafði vinnuveitandi Kesse samband við foreldra hennar til að segja þeim að dóttir þeirra væri ekki mætt til vinnu. Foreldrar hennar, Drew og Joyce Kesse, áttuðu sig á því að eitthvað var að hjá dóttur þeirra og keyrðu frá Tampa til Orlando til að athuga með hana.

Þeir komust fljótlega að því að bíllinn hennar var ekki við heimili hennar, en íbúðin hennar sýndi engin merki um óreiðu eða innbrot. Þau fundu rakt handklæði sem benti til þess að hún hefði farið í sturtu um morguninn fyrir vinnu, föt á rúminu hennar, náttföt á gólfinu og leifar af farða á baðborðinu. Skópar sem Kesse var spennt fyrir að nota vantaði í fataskápinn hennar. Allt benti til þess að hún hefði haft sig til eins og venjulega og haldið af stað til vinnu.

Plakatið þar sem lýst var eftir Jennifer

Lögreglan lýsir eftir Jennifer 

Síðan Kesse hvarf hefur lögreglu tekist að hafa uppi á bíl hennar,  en ekki mikið annað. Tveimur dögum eftir að Kesse hvarf fengu rannsakendur símtal frá einhverjum sem hafði séð mynd af bílnum hennar í fréttum og hélt að hann líktist mjög þeim sem lagt var fyrir utan blokkina þeirra. Svo reyndist vera, svartur 2004 Chevy Malibu, sem Kesse átti. Við greiningu á bílnum á rannsóknarstofu lögreglunnar fundust aðeins tvö efnisleg sönnunargögn: lítið magn af DNA og fingrafar sem þótti of lítið til að gefa gagnlegar upplýsingar, sagði faðir Kesse við Fox News árið 2016.

DVD-spilari var í aftursæti bílsins. Persónulegir muni Kesse, eins og farsími hennar og veski, hafa aldrei fundist, en engar úttektir hafa verið af bankareikningi hennar síðan hún hvarf svo lögreglan telur ekki að rán hafi verið ástæðan fyrir hvarfi hennar.

Sönnunargögn í bílnum ollu rannsóknarlögreglunni því vonbrigðum og sama var með myndbandsupptökur úr myndavél blokkarinnar þar sem bíllinn fannst. Á upptöku sést einstaklingur koma á bílnum um hádegi daginn sem Kesse hvarf og skilja bílinn eftir. Myndavélarnar tóku aðeins mynd á þriggja sekúndna fresti í stað þess að mynda stöðugt og í hvert sinn sem viðkomandi einstaklingur næst á mynd er hann falinn bak við grind í hliði blokkarinnar. Því var engin leið að bera kennsl á nein útlitseinkenni. 

Rannssóknarlögreglan nýtti sér tækni hjá NASA til að bæta myndbandsupptökurnar, en það bar ekki neinn árangur og ómögulegt að sjá hvers kyns viðkomandi einstaklingur er. Lögreglan gat þó giskað á að einstaklingurinn væri á bilinu 160-165 sm á hæð. Fjölmiðlar sögðu að viðkomandi einstaklingur sem mögulega væri viðriðinn hvarf Kesse væri „heppnasta manneskjan sem grunuð er um glæp.“

Ekki er möguleiki á að bera kennsl á þann sem kemur og skilur bíl Jesse eftir

Slóðin kólnar 

Án áþreifanlegra sönnunargagna til að halda áfram með málið snerist rannsóknin að þeim sem þekktu Jennifer Kesse. Kærasti hennar og bróðir, sem og fyrrverandi kærasti Kesse, sem hafði verið að reyna að fá hana til að taka aftur upp ástarsamband þeirra, voru allir sýknaðir af grun. Rannsóknarlögreglan skoðaði einnig vinnufélaga Kesse, sem hafði reynt við hana án árangurs, en hann var sömuleiðis ekki talinn hafa komið nálægt hvarfi hennar.

Kesse hafði nefnt við fjölskyldu sína að byggingarstarfsmenn sem unnu við viðgerðir á blokkinni sem hún bjó í kölluðu stundum á eftir henni, en þær vísbendingar leiddu heldur ekkert í ljós. Kreditkortin hennar voru ónotuð eftir hvarf hennar og slökkt hafði verið á farsímanum hennar. Kesse var horfin og engar vísbendingar um hvert. Fjölskylda hennar hefur aldrei gefið upp vonina um að hún sé einhvers staðar á lífi. 

„Ímyndaðu þér að vakna og dóttur þína er hvergi að finna,“ sagði rannsóknarlögreglumaðurinn Teresa Sprague hjá lögreglunni í Orlando við Orlando Sentinel þegar liðin voru tíu ár frá hvarfinu. „Þú getur ekki náð í hana, þú getur ekki fundið hana. Lögreglan getur ekki fundið hana. Þetta breytist í þína verstu martröð. Ég get ekki ímyndað mér það sem Kesse fjölskyldan hefur gengið í gegnum síðustu tíu árin.“

Barátta Kesse fjölskyldunnar við lögregluna í Orlando

Árið 2018 stefndi Kessefjölskyldan lögreglunni í Orlando og krafðist frekari upplýsinga um hvarf Kesse. Bill Gilmour, frændi Kesse, sagði við Fox News árið 2023, að lögreglan hefði fullyrt upphaflega „að það væru engin sönnunargögn eða ekkert sem hefði þýðingu fyrir málið úr bíl hennar.“  En eftir að fjölskyldan fékk gögnin afhent og menn á þeirra vegum fóru í gegnum skjölin, um 15-18.000 skjöl, kom fram að DNA hefði fundist í bílnum, sem lögreglan sagðist ekki hafa fundið.“

Lögreglan afhenti einnig myndir af ökutæki Kesse sem fjölskyldan hafði ekki séð áður. Sagt er að myndirnar sýni ryk á bílnum frá byggingarvinnu og ummerki um átök á húddinu á bílnum. „Okkur var heldur ekki greint frá því,“ sagði Gilmour.

Árið 2020 sagði faðir Kesse að hann teldi dóttur sína vera fórnarlamb mansals og árið 2022 sakaði hann lögregluna í Orlando um vanrækslu og vanhæfni í rannsókninni á hvarfi hennar.

„Ímyndaðu þér, að berjast fyrir óbreyttum rannsóknargögnum við lögfræðinga borgarinnar og fá einkarannsakendur okkar til að finna Jennifer með öllum þessum skjölum. Og að komast svo að því að aðalrannsakandinn í máli hennar hafði ekki skrifað eina skýrslu eða skjal í málinu síðan 2010, í 12 ár! Við trúum því staðfastlega að vanræksla lögreglunnar og skortur á hæfni hafi kostað okkur tækifærið til að finna Jennifer,“ sagði faðir hennar við News 6 Orlando. 

Í nóvember 2022 tók lögregludeild Flórída við rannsókninni. Kesse fjölskyldan vonast til að það leiði til frekari DNA-rannsókna og nýrra vísbendinga í málinu. 

„Á þessum tímapunkti og eftir óteljandi tilraunir til að fá yfirvöld til að gera það sem þarf til að finna Jennifer eða ekki, með afgerandi hætti, teljum við okkur nú hafa komið máli hennar til yfirvalda sem hafa hæfnina til, og hafa vilja og getu til að finna Jennifer þrátt fyrir að 17 ár séu frá hvarfi hennar,“ skrifaði fjölskyldan á GoFundMe síðu Kesse í janúar 2023.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Vísindamenn vita ekki hvað er í gangi – Dularfullir geislar skella á jörðinni

Vísindamenn vita ekki hvað er í gangi – Dularfullir geislar skella á jörðinni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Uppgötvuðu „sjófjall“ tvisvar sinnum hærra en hæsta bygging heims

Uppgötvuðu „sjófjall“ tvisvar sinnum hærra en hæsta bygging heims
Pressan
Fyrir 3 dögum

Stór morgunmatur og lítill kvöldmatur geta stuðlað að þyngdartapi

Stór morgunmatur og lítill kvöldmatur geta stuðlað að þyngdartapi
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hann var að bursta tennurnar þegar óhappið varð – Læknar höfðu aldrei séð neitt þessu líkt

Hann var að bursta tennurnar þegar óhappið varð – Læknar höfðu aldrei séð neitt þessu líkt
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fangelsisdómur fyrir son minn væri eins og dauðadómur

Fangelsisdómur fyrir son minn væri eins og dauðadómur
Pressan
Fyrir 4 dögum

Óvenju mörg tilfelli af lungnabólgu greinst að undanförnu

Óvenju mörg tilfelli af lungnabólgu greinst að undanförnu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ætla að rannsaka hugsanlegar aukaverkanir kórónuveirubóluefna á konur

Ætla að rannsaka hugsanlegar aukaverkanir kórónuveirubóluefna á konur
Pressan
Fyrir 4 dögum

Óttast innrás „ofursvína“ í Bandaríkin

Óttast innrás „ofursvína“ í Bandaríkin