fbpx
Mánudagur 13.maí 2024
Pressan

Sakar Rússa um að hafa haft heiminn að fíflum með launráðum – Var uppreisn Prigozhin ekki það sem hún sýndist?

Pressan
Fimmtudaginn 10. ágúst 2023 10:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margt hefur verið ritað og rætt um hina skammvinnu uppreisn Yevgeni Prigozhin gegn Vladímír Pútín sem átti sér stað þann 24. júní. Prigozhin, sem gjarnan hefur verið uppnefndur fyrir náið samband sitt við forseta Rússlands og kallaður kjölturakki Pútíns eða Kokkur-Pútíns, vakti gífurlega athygli fyrir að hafa svikið forsetann og snúið sókn Wagner-málaliða í átt að Moskvu. Var talið að málið mætti rekja til þess að Prigozhin væri óánægður með hernaðarlega forystu Rússlands sem hann sagði spillta. Uppreisninni lauk þó eins skjótt og hún hófst þegar Prigozhin ákvað frá að hverfa til að koma í veg fyrir blóðug átök. Seinna fóru sögur að ganga um að Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, hefði miðlað málum og lofað Prigozhin og Wagner-málaliðum friðhelgi.

Því var almennt talið að uppreisnin, sem hafi vissulega beinst gegn rússneskum stjórnvöldum, hafi verið eins konar misheppnað frekjukast frá Prigozhin. Pútín kallaði þó athæfið landráð og þótti flestum ljóst að vinátta Pútíns og kjölturakkans væri nú úr sögunni. En er allt sem sýnist? Ákvað Prigozhin, eftir að hafa áratugum saman staðið fast að baki forsetanum, skyndilega að svíkja sinn helsta bandamann bara til að blása í lúðra í fáeinar klukkustundir og flýja svo með skottið milli lappanna áður til nokkurra átaka kom?

Heimurinn hafður að fíflum

Úkraínskur stjórnmálamaður telur ljóst að þetta hafi verið með ráðum gert og hafi heimurinn verið hafður að fíflum. Oleksiy Danilov, sem er yfir öryggisráði Úkraínu, segir að uppreisnin hafi verið sviðsett til að fiska út ódrottinsholla aðila innan Rússlands.

„Í dag getum við fullyrt að þetta hafi verið sérstök aðgerð unnin í samráði við Pútín til að afhjúpa þá herforingja sem eru ekki alfarið hliðhollir Pútín og skósveinum hans,“ sagði Danilov í vikunni í sjónvarpsviðtali í Úkraínu.

Ljóst sé að nokkur óánægja ríki bak við tjöldin í Rússlandi hvað varðar ákvarðanir sem forsetinn hefur tekið allt frá því að innrásin var fyrirskipuð og þessi óánægja aukist dag frá degi. Greiningaraðilar meti það svo að þessi meinta uppreisn hafi átt að afvegaleiða leyniþjónustu óvinaríkja.

„Allt þetta mál með Prigozhin, jafnvel áður en uppreisnin átti sér stað, virkaði fyrir mér eins og skrípaleikur sem Pútín og hans nánustu ráðgjafar, settu á svið fyrir Vesturlöndin,“ sagði Alexei Pavlenko, prófessor í rússneskum fræðum við háskólann í Colarado við Newsweek. „Tilgangurinn var að rugla vestræna greiningaraðila og hernaðarsérfræðinga og síðan að hlakka yfir fyrirsjáanlegum greiningum um að fall Pútíns væri yfirvofandi. Markmiðið var að bæði að halda stjórnendum innan rússneska hersins á tánum og svo að planta óreiðu í upplýsingaflæði óvina.“

Launráð og sýndaraðgerð

Fyrrum njósnari hjá leyniþjónustu bandaríska varnarmálaráðuneytisins, DIA, gekk svo langt að kalla þetta sýndaraðgerð (e. false flag operation) í grein sem hún ritaði þar sem hún gagnrýndi Vesturlönd fyrir að falla fyrir launráðum.

Rebekah Koffler skrifaði: „Hugsið um þetta: Her ræðst inn í Rússland, keppist þar við að komast til Moskvu, en ekki ein manneskja meiðist? Með aðeins nokkur þúsund mönnum tókst þeim það sem Hitler tókst ekki með næstum milljón manns? Og Pútín heldur aftur að sínum her? Og svo, þegar Moskva var innan seilingar, þá ákveður Prigozhin – Nú jæja, þetta skiptir síðan bara engu máli – og bara röltir svo til Hvíta-Rússlands?“

Rebekah segir að þessi meinta uppreisn hafi hreinlega verið pólitískt útspil forsetans til að afla honum fylgis fyrir kosningarnar á næsta ári.

„Þar sem enn sér ekki fyrir endinn á stríði Rússlands og Úkraínu þá þarf Pútín að að sannfæra Rússa um að þeir þurfi að færa frekari fórnir til að viðhalda stuðningi við stríðið. Pútín nær þessu fram með því að spila inn á tvennt sem Rússar hræðast mest: innrás frá Vesturlöndum og óreiðu.“

Prigozhin hefur, eftir meintu uppreisnina, haldið því fram að hann hafi ekki verið að reyna að svipta Pútín völdum. Hann hafi hreinlega verið reiður því 30 málaliðar hans hafi verið felldir í loftárás frá rússneska hernum. Þetta hafi verið óréttlæti sem þurfti að svara. Hins vegar hafi þeir sannað mál sitt með uppreisninni og engin þörf að fara í blóðsúthellingar.

Það sem meira var þá leiddi þetta víst til þess að diplómatar frá Bandaríkjunum höfðu samband við rússneska kollega sína til að ræða um þær ógnir sem uppreisnin olli, svo sem hættuna á beitingu kjarnavopna.

Eftir situr að uppreisnin vakti vissulega mikla athygli, einkum meðal vestrænna fjölmiðla og ríkisstjórna. Vakti það eins furðu þegar henni snögglega lauk án þess að málaliðarnir hafi náð þeim árangri sem þeir sögðust stefna að og án þess að til átaka kæmi. Nokkrum dögum síðar greindu Rússar frá því að forsetinn hefði hitt fyrrum kjölturakkann og hafi sá fundur farið vel fram. Ljóst væri að þrátt fyrir svik Prigozhin væri Wagner-málaliðahópurinn engu að síður mannaður einstaklingum sem bæru hag fósturjarðar sinnar fyrir brjósti. Þessi ummæli þóttu benda til þess að Pútín gæti áfram séð fyrir sér að njóta aðstoðar Wagner-liða í Úkraínu, en það er þó nokkuð furðuleg afstaða. Eins má velta fyrir sér hvort að viðbrögð Pútíns við þessu öllu saman komi heim og saman við aldur og fyrri störf. Skemmst er að minnast þess að Rússar eiga von á gífurlega hörðum viðbrögðum fyrir allt sitt athæfi sem gæti verið túlkað sem áróður, afstaða eða aðgerðir gegn rússneska hernum og hagsmunum stjórnvalda. Hafa jafnvel foreldrar barna sem teikna myndir gegn stríði verið beittir hörðum viðurlögum, fjölmiðlar hafa verið múlbundnir og mega aðeins fjalla um stríðið með einhliða hætta og fólk hefur verið ákært og fangelsað fyrir mótmæli. Hvernig má það því vera að Prigozhin fær að vera nokkuð stikkfrír? Þetta er í það minnsta spurning sem margir virðast vera að velta fyrir sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Talíbanar vilja fá fleiri ferðamenn til landsins

Talíbanar vilja fá fleiri ferðamenn til landsins
Pressan
Fyrir 2 dögum

Brandy hvarf að heiman – „Undarleg tilfinning sækir á mig“

Brandy hvarf að heiman – „Undarleg tilfinning sækir á mig“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Tvær nýjar myndir um Hringadróttinssögu væntanlegar

Tvær nýjar myndir um Hringadróttinssögu væntanlegar
Pressan
Fyrir 3 dögum

Farþegi í leigubíl stal honum og lést síðan í árekstri

Farþegi í leigubíl stal honum og lést síðan í árekstri
Pressan
Fyrir 5 dögum

Eltihrellirinn úr Baby Reindeer mætir í viðtal hjá Piers Morgan – Fiona Harvey vill leiðrétta eitt og annað

Eltihrellirinn úr Baby Reindeer mætir í viðtal hjá Piers Morgan – Fiona Harvey vill leiðrétta eitt og annað
Pressan
Fyrir 5 dögum

Hætta sölu AstraZeneca bóluefnisins

Hætta sölu AstraZeneca bóluefnisins