Í gær birti lögreglan upptöku úr eftirlitsmyndavél sem sýnir þegar fjölskyldan var numin á brott. Mikil leit hafði þá staðið yfir að henni síðan á mánudaginn.
Fjölskyldan samanstendur af Jasleen Kaur, 27 ára, og eiginmanni hennar, hinum 36 ára Jasdeep Singh, og barni þeirra Aroohi Dheri, 8 mánaða, auk Amandeep Singh, 39 ára bróður Jasdeep.
Á upptökunni sést að maður, sem var með andlitsgrímu, fór fyrst á brott með bræðurna og sótti síðan móður og barn. Hendur bræðranna voru bundnar en móðirin hélt á barninu.
Þegar bíll Amandeep Sing fannst brunninn ekki langt frá fyrirtækinu fór lögregluna að gruna að ekki væri allt með felldu og upptökur eftirlitsmyndavéla staðfestu það.
Skömmu eftir brottnámið var greiðslukort fjölskyldunnar notað í nálægum hraðbanka og í kjölfarið hafði lögreglan uppi á hinum grunaða sem er nú í vörslu lögreglunnar. Lögreglan telur að hann hafi átt sér vitorðsmann.
Ekki er vitað af hverju hann nam fjölskylduna á brott en lögregluna grunar að peningar hafi verið hvatinn.
CNN skýrði frá því í morgun að lögreglan hafi fundið lík fjölskyldunnar á afskekktum sveitabæ í Kaliforníu í gær.
Á fréttamannafundi í gærkvöldi sagði Vern Warnke, lögreglustjóri í Merced County, að verstu áhyggjur lögreglunnar hefðu verið staðfestar í gærkvöldi.
Lík hinnar 8 mánaða Aroohi fannst á sama svæði og lík foreldra hennar og frænda.
Lögreglunni barst ábending í gærkvöldi um að líkin væru á þessu svæði.