Þetta eru þurrkar en þeir geta haft mikil áhrif á matvælaverð því uppskeran verður ekki eins góð og ella. Í umfjöllun Børsen um málið er haft eftir Anders Mortensen, hrávörugreinanda hjá Agrocura, að nú sé óvenjulega þurrt í Evrópu, Bandaríkjunum og á nokkrum svæðum í Kanada. Allt eru þetta svæði þar sem mikil ræktun landbúnaðarafurða fer fram og skiptir sú framleiðsla miklu máli á hrávörumörkuðum heimsins.
Mortensen sagði að stríðið í Úkraínu hafi haft neikvæð áhrif á hrávörumarkaði og ef þurrkar bætist þar við geti það haft alvarlegar afleiðingar og valdið enn frekari verðhækkunum. „Þetta getur orðið mjög, mjög slæmt,“ sagði hann.
Til dæmis hefur verið mjög þurrt í Frakklandi síðustu mánuði en landið stendur undir þriðjungi af hveitiframleiðslu Evrópu. Ef ekki fer að rigna á næstunni er hætt við að uppskeran verði mun minni en ella. Mortensen sagði að enn geti uppskeran bjargast vegna þess að meðalhitinn í álfunni hafi verið frekar í lægri kantinum það sem af er ári. En til að uppskeran bjargist þarf að rigna mikið á næstu 14 dögum.