Álftaneskaffi, kaffi- og veitingahúsið vinsæla mun loka dyrum sínum í hinsta sinn þann 14. júlí næstkomandi. Í tilkynningu frá eigendum kaffihússins, hjónunum Skúla Guðbjarnarsyni og Sigrúnu Jóhannsdóttur, sem hafa staðið að rekstrinum undanfarin átta ár, á Facebook-síðu fyrirtækisins kemur fram að lokunin sé í góðri samvinnu við bæjaryfirvöld. Mbl.is greindi fyrst frá.
„Þetta er búið að vera einstaklega skemmtilegur tími með ykkur, kæru viðskiptavinir,“ segja hjónin og þakka fyrir allar góðu stundirnar.
Kaffihúsið var rómað fyrir pizzur og heimagert bakkelsi sem margir munu sakna, ekki bara íbúar Álftanes, því gestir kaffihússins komu víða að.