fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Dæmdir nauðgarar á Tinder

Auður Ösp
Sunnudaginn 23. febrúar 2020 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég vil bara að fólk viti af þessu, svo það geti verið vel upplýst og farið varlega,“ segir ung íslensk kona sem komst í kynni við mann í gegnum Tinder-forritið og hitti hann síðar á stefnumóti. Stuttu seinna komst hún að því að maðurinn hefði hlotið þriggja ára fangelsisdóm fyrir að taka þátt í að hópnauðga konu.

Konan kynntist manninum í gegnum forritið í seinasta mánuði. Þau spjölluðu saman um tíma áður en þau ákváðu að hittast í eigin persónu og fara út að borða.

„Mér fannst hann skemmtilegur og fínn gaur en samt eitthvað pínulítið „off“ við hann áður en við hittumst. Meira „off“ við hann á deitinu, og sú tilfinning fyrir honum varð bara sterkari með hverjum degi eftir deitið,“ segir konan en hún segir manninn hafa verið ákafan í að hitta hana aftur eftir þetta.

Hún ákvað hins vegar að fylgja innsæinu og leita á náðir Google til að finna upplýsingar um manninn. „Þar sem ég er mjög lífsreynd kona að þá þekki ég ansi margt. Ég veit eitt og annað og er góð í að lesa fólk, og er næm fyrir fólki í þokkabót.“

Grunur konunnar reyndist réttur. Maðurinn sem hún kynntist á Tinder heitir Ingi Björn Ingason. Hann og félagi hans voru dæmdir í þriggja ára fangelsi árið 2016, fyrir að hafa nauðgað konu á heimili Inga. Konuna höfðu þeir hitt fyrr um kvöldið á skemmtistaðnum Spot en fyrir dómi sagðist konan hafa verið mjög ölvuð og ekki munað hvernig hún endað heima hjá Inga. Félagarnir tveir þvinguðu konuna inni í svefnherbergi Inga þar sem þeir brutu á henni kynferðislega og skildu hana eftir með marbletti á upphandleggjum, hægri framhandlegg og hægri sköflungi.

Braut gegn 12 stúlkum

Undanfarin misseri hafa íslenskar konur reglulega birt færslur á samfélagsmiðlum og sagst hafa rekist á eða átt samræður við dæmda ofbeldis- og kynferðisglæpamenn á forritinu. Í sumum tilfellum hafa samræður á forritinu leitt til stefnumóts.

Erol Topal, 48 ára karlmaður, var skráður á Tinder á seinasta ári. Aðeins ári áður hafi Erol hlotið fimm ára fangelsi fyrir að nauðga tveimur konum, þeirri fyrri árið 2015 og þeirri seinni árið 2016. Þeirri fyrri nauðgaði Erol eftir að hafa elt hana heim að nóttu til. Seinni nauðgunin átti sér stað á heimili Erols og var einkar hrottaleg og stóð lengi yfir, Erol hafði deilt leigu­bíl með konunni úr miðbæn­um. Hann beitti hana of­beldi meðal ann­ars með því að slá hana og kýla ít­rekað í and­lit og lík­ama. Í samtölum við lögreglu staðfestu ná­grann­ar hans að þeir hefðu heyrt ösk­ur og hróp í rúm­an klukku­tíma áður en þeir kölluðu til lög­reglu, en þeir töldu í fyrstu að hljóðin kæmu frá bíó­mynd. Sjálfur hélt Erol því fram fyrir dómi að konan hefði sjálf veitt sér þá áverka sem fundust á henni.

Árið 2013 var Eyþór Kolbeinn Kristbjörnsson sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir kynferðisbrot gagnvart tólf ungum stúlkum. Eyþór tældi stúlkur til sín undir því yfirskini að hann væri „áhugaljósmyndari“ sem vildi mynda þær. Hann var einnig kærður fyrir þrjár nauðganir en aðeins sakfelldur fyrir eina. Nauðgunin sem hann var sakfelldur fyrir beindist gegn 16 ára stúlku, en yngstu fórnarlömb Eyþórs voru tólf og þrettán ára þegar hann braut gegn þeim. Hann var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Málið var töluvert til umræðu á sínum tíma og hlaut Eyþór Kolbeinn fljótlega uppnefnið „Eyþór áhugaljósmyndari.“ Hann afplánaði dóm sinn í fangelsinu að Sogni.

Undanfarin misseri hafa DV borist nokkrar ábendingar um að Eyþór sé virkur á Tinder-forritinu og sé sífellt að stofna nýjan aðgang. Oftast notast hann við nafnið Thor.

„Mun líklega adda þér á Snap“

Í ágúst 2016  nauðgaði 19 ára piltur, Elvar Sigmundsson, tveimur unglingsstúlkum í sömu vikunni. Brotin voru hrottaleg en brotaþolar voru báðir 15 ára. Þeirri fyrri nauðgaði hann mánudaginn 25. júlí og þeirri síðari helgina eftir, aðfaranótt sunnudagsins 31. júlí. Fyrri nauðgunin átt sér stað á heimili Elvars, hjá foreldrum hans í Reykjanesbæ. Stúlkan sem varð fyrir því broti lýsti því fyrir dómi svo að hún hefði talið að hún myndi deyja þar og þá. Elvar beitti hana grófu ofbeldi auk þess að nauðga henni. Hann tók hana meðal annars kverkataki, sló hana ítrekað í andlitið og steig á háls hennar þar sem hún lá á gólfinu.

Í desember þetta sama ár var Elvar dæmdur í fimm og hálfs ára fangelsi fyrir brotin. Í júlí 2017, aðeins sjö mánuðum seinna var hann hins vegar kominn á Vernd, eftir að hafa verið á Sogni, og búinn að stofna aðgang á Tinder. DV greindi frá málinu á sínum tíma.

Fram kom að Elvar hefði byrjað á Tinder um svipað leyti og hann var á leið á Vernd en á Sogni er öll notkun samskiptamiðla bönnuð.

„Ljóst er að hann var virkur á stefnumótaforritinu því hann „super-lækaði“ nýverið unga stúlku líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Það þýðir með öðrum orðum að hann lýsti yfir eindregnum áhuga á frekari kynnum. Á Tinder lýsir hann sér svo: „Lele mun mest líklegast adda þér á snap ef ég sé það cause why the fuck not? Fun having friends“.

Samfangi Elvars sem DV ræddi við sagðist óttast verulega að hann myndi nauðga aftur þar sem hann hefði sagt „þetta vera eðlilega framkomu við druslur“.

Skráði sig á Tinder áður en hann lauk afplánun

Árið 2017 hlaut Hrafnkell Óli Hrafnkelsson tíu ára fangelsisdóm fyrir hrottalegt ofbeldi gegn konu á þrítugsaldri. Í nóvember 2018 greindi DV frá því að finna mætti aðgang á Tinder undir hans nafni og mynd. Hrafnkell var dæmdur fyrir tilraun til manndráps, frelsissviptingu, nauðgun og sérstaklega hættulega líkamsárás gegn konunni.

Samkvæmt dómnum kom Hrafnkell óboðinn til konunnar ásamt félaga sínum eftir að hafa skemmt sér í miðbænum. Konan leyfði þeim að gista á sófa í stofunni. Fyrr en varði var hann kominn inn í svefnherbergi hennar og fór að káfa á henni. Þegar hún hafnaði honum hófst nærri þriggja tíma martröð. „Vitnið kvaðst þó hafa náð að losa sig og hlaupa fram á gang og opna útidyrahurðina, en vegalengdin sé svo stutt að ákærði hefði strax náð vitninu og snúið það niður með hálstaki fyrir utan útidyrahurðina. Vitnið kvaðst hafa reynt eins og það gat að sparka og klípa í punginn á ákærða og losna,“ segir meðal annars í dómi.

Samkvæmt dómi stóð þetta yfir lengi og fannst konunni eins og hún væri að deyja. Það eina sem hún mundi af þessu hefði verið að hún hefði hætt að geta hreyft sig og hristist í fótunum. Fram kom í frétt DV að það væri að vísu ekki útilokað að einhver annar en hann hafi stofnað aðganginn enda hefur ítrekað verið greint frá því að slíkir aðgangar hafi verið stofnaðir í óþökk viðkomandi.

„Gríðarlega erfitt“ að skima alla

Tinder-forritið hefur umbylt stefnumótamenningunni frá því það kom á markað árið 2012. Skráðir notendur á heimsvísu er rúmlega 50 milljónir. Undanfarin ár hefur Tinder verið gagnrýnt fyrir skima ekki þá sem skrá sig inn á forritið, eða kanna fyllilega hvort viðkomandi notandi hafi hlotið dóma fyrir ofbeldis- eða kynferðisbrot. Það er því ekkert sem hindrar dæmda einstaklinga í því að skrá sig á forritið og setja sig í samband við aðra notendur.

Á seinasta ári birti bandaríski fréttamiðilinn ProPublica niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var af blaðamönnum miðilsins og Columbia Journalism Investigations. Blaðamennirnir tóku saman 150 tilkynnt kynferðisbrot en öll brotin áttu það sameiginlegt að aðilarnir höfðu kynnst í gegnum stefnumótaforrit. Langflest fórnarlömbin voru konur. Í 10 prósentum tilvika hafði fórnarlamb brotsins  „matchað“ við einstakling sem áður hafði verið sakaður um eða dæmdur fyrir kynferðisbrot.

Ekkert skimunarkerfi er til staðar þegar nýir notendur skrá sig á Tinder-forritið. Til samanburðar má nefna öryggisráðstafanir á heimasíðu Airbnb sem fjölmargir Íslendingar notast við. Þar segir í skilmálum:

Skimunarkerfi geta aldrei verið fullkomin en við berum gestgjafa og gesti saman við eftirlitsskrár vegna reglufylgni, hryðjuverka og annarra viðurlaga. Við skoðun einnig bakgrunn gestgjafa og gesta í Bandaríkjunum.

Tinder er í eigu bandaríska fyrirtækisins Match. Fyrirtækið á fleiri stefnumótaforrit og síður sem eru með frían aðgang, líkt og Plenty of Fish og OkCupid. Stefnumótasíðan Match.com er einnig í eigu fyrirtækisins en munurinn á þeirri síðu og forritunum fyrrnefndu er sú að á Match.com er greitt fyrir áskriftina. Þar er framkvæmd bakgrunnsathugun á notendum.

Í tengslum við rannsókn ProPublica var meðal annars rætt við Markham Erickson lögfræðing sem sérhæfir sig í internetlögum og hefur unnið náið með Matchgroup. Sagði hann það vera gríðarlega erfitt að skima alla þá sem skrá sig inn á stefnumótaforrit.

„Við getum ekki tekið niður fingraförin hjá öllum,“ sagði hann og bætti við að dæmdir kynferðisbrotamenn gætu auðveldlega gefið upp rangar persónuupplýsingar.

Segja nýjar öryggisráðstafanir væntanlegar

Í notendaskilmálum Tinder kemur fram að sá sem skráir sig inn á forritið þurfi að vera orðinn 18 ára gamall og megi ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað eða kynferðisglæp. Í yfirlýsingu sem talskona Matchgroup sendi blaðamanni Business Insider í desember síðastliðnum kom meðal annars fram að þar sem Tinder væri  forrit sem byði upp á fría áskrift og væri þar að auki með tugi milljóna notenda þá væri hreinlega ekki mögulegt að safna sama nægilegum og áreiðanlegum upplýsingum til að framkvæma bakgrunnsskoðun á hverjum og einum.

Talskonan tók fram það væri „ekki liðið“ að dæmdir brotamenn væru skráðir inn á forrit á vegum fyrirtækisins og bætti við að forsvarsmenn fyrirtækisins tækju málið mjög alvarlega. Bætti hún við að í takt við tækniþróun myndi Matchgroup halda áfram að kynna til sögunnar nýjar ráðstafanir til að auka öryggi þeirra sem nota stefnumótaforrit á vegum fyrirtækisins.

Á meðal nýrra öryggisráðstafana sem hafa verið kynntar og eru væntanlegar á Tinder-forritið á árinu er svokallaður neyðarhnappur sem mun gera viðkomandi notanda kleift að gera yfirvöldum viðvart ef hann eða hún telur sig vera í hættulegum aðstæðum. Þá er í bígerð sannprófun myndefnis notenda sem mun fel­ast í því að gervi­greind met­ur ljós­mynd­ir sem not­end­ur hlaða inn í for­ritið og ber sam­an við ljós­mynd sem tek­in er af not­and­an­um í raun­tíma. Þeir not­end­ur sem stand­ast prófið fá svo eins kon­ar skjöld (badge) og geta aðrir notendur því verið öruggir um að ekki sé um falsaðgang að ræða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna

Búið að tryggja Úkraínumönnum 500 þúsund sprengjuskot – Íslendingar gáfu 300 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni