fbpx
Þriðjudagur 27.júlí 2021
Fréttir

Mörg hundruð njósnarar á vegum Pútíns í Lundúnum

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 24. nóvember 2018 19:00

Rússneskir borgarar Grunaðir um morðtilraunina á Skripal feðginunum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nýrri skýrslu frá hugveitunni The Henry Jackson Society er reynt að meta fjölda rússneskra njósnara í Lundúnum og skýra frá starfsaðferðum þeirra. Fram kemur að mörg hundruð njósnarar og upplýsingagjafar á snærum Rússa starfi í borginni. Rússar eru sagðir leggja mikla áherslu á að fá fyrrverandi starfsmenn breskra ráðuneyta til liðs við sig.

Umfang njósnastarfsemi Rússa í Bretlandi komst í kastljósið í kjölfar hinnar misheppnuðu morðtilraunar á Sergej Skripal í Salisbury í mars. Þá var eitrað fyrir honum með hinu bráðdrepandi rússneska taugaeitri Novichok. Bresku lögreglunni tókst að rekja slóð hinna meintu tilræðismanna í Lundúnum og í Salisbury og komast að því hverjir þeir eru. Þar reyndust vera tveir rússneskir leyniþjónustumenn á ferð en rússnesk stjórnvöld þvertóku fyrir það. Þeir mættu í sjónvarpsviðtal hjá rússnesku sjónvarpsstöðinni RT, sem er fjármögnuð af stjórnvöldum í Kreml, og staðhæfðu að þeir væru sárasaklausir menn sem hefðu einfaldlega verið í skoðunarferð í Salisbury og hefðu ekki komið nálægt morðtilrauninni. Þessu trúðu fáir ef nokkur utan Rússlands og meira að segja í Rússlandi hefur fólk miklar efasemdir um þessa frásögn tvímenninganna.

Í kjölfar sjónvarpsviðtalsins skýrði rannsóknarfjölmiðillinn Bellingcat frá réttum nöfnum tvímenninganna og staðfesti þar með það sem breska lögreglan hafði haldið fram, að mennirnir væru rússneskir leyniþjónustumenn á vegum leyniþjónustu hersins GRU. Þeir heita Alexander Mishkin og Anatoliy Chepiga en notuðu dulnefnin Alexander Petrov og Ruslan Boshirov þegar þeir ferðuðust til Bretlands.

Það er auðvitað ákveðinn áfangasigur fyrir Breta að hafa komist að hinu sanna um nöfn og störf tvímenninganna. En enn eru mörg hundruð rússneskir njósnarar, leyniþjónustumenn og upplýsingagjafar við störf í Bretlandi án þess að bresk stjórnvöld viti hverja er um að ræða.

„Pútín sér og heyrir allt: Hvernig rússnesk leyniþjónusta ógnar Stóra-Bretlandi“

Þetta er titill skýrslu The Henry Jackson Society en hún var skrifuð af dr. Andrew Foxall. Samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni eru allt að 200 rússneskir leyniþjónustumenn í Bretlandi og stýra þeir 500 njósnurum og upplýsingagjöfum. Starfsemi Rússanna beinist að sögn aðallega að Lundúnum og nærliggjandi svæðum. Þeir reyna stöðugt að afla sér upplýsinga um flest það sem viðkemur Bretlandi og breskum hagsmunum og taka virkan þátt í þeirri aðgerðaáætlun Rússa að ala á sundrung og óeiningu á Vesturlöndum.

Vladimír Pútín
Opinber heimsókn til Lundúna árið 2012.

Margir í útlegð

Í Lundúnum búa tugir þúsunda Rússa sem eru margir hverjir í útlegð, annaðhvort sjálfskipaðri eða tilneyddir, frá Rússlandi. Sumir þeirra starfa á vegum Pútíns og stjórnar hans en aðrir eru harðir andstæðingar forsetans. Rússnesku útsendararnir hafa því gott auga með þeim og stöku sinni eru þeir myrtir að því er segir í skýrslunni.

Á undanförnum árum, allt að áratug, hafa margir andstæðingar Pútíns látist á dularfullan hátt í Lundúnum. Til dæmis er einn Rússi sagður hafa framið sjálfsvíg með því að stinga sig með tveimur hnífum. Auk þessa hafa leyniþjónusta Bandaríkjanna og Bretlands gefið til kynna að rússnesk stjórnvöld starfi með skipulögðum glæpasamtökum á borð við rússnesku mafíuna.

Í skýrslunni er talað um 200 rússneska leyniþjónustumenn í Lundúnum en sumir telja að þeir séu enn fleiri. Erfitt er að leggja mat á fjölda njósnara og upplýsingagjafa Rússa í borginni enda eru Rússar í borginni varir um sig og í rússneska samfélaginu í borginni ríkir nánast ofsóknarbrjálæði. Sumir telja að allt að annar hver Rússi í borginni sé upplýsingagjafi á vegum rússneskra stjórnvalda. Ef það er rétt eru upplýsingagjafarnir allt að 70.000 en um 150.000 Rússar búa í Lundúnum. Markmið rússnesku útsendaranna með því að skapa einhvers konar ofsóknarbrjálæði meðal Rússa í borginni er að koma í veg fyrir að fólk tali af sér.

„Segðu aldrei neitt um einkamálefni sem þú myndir ekki segja opinberlega. Segðu aldrei neitt opinberlega sem þú vilt ekki að Kreml heyri,“ segir í skýrslunni um hugarfar margra Rússa í borginni.

Skýrsluhöfundurinn, Foxall, telur að allt að 1.000 upplýsingagjafar geti verið á vegum Rússa í Lundúnum. Sumir rússnesku njósnaranna starfa í rússneska sendiráðinu og aðrir hjá rússneska viðskiptaráðinu. Enn aðrir nota dulnefni og eru ekki með diplómatavegabréf. Þeir reyna að fá stjórnmála- og embættismenn til liðs við sig. Þeir eru duglegir að mæta í samkvæmi og móttökur til að komast í tæri við stjórnmála- og embættismenn. Aðrir villa á sér heimildir og segjast tilheyra rússnesku stjórnarandstöðunni og enn aðrir segjast starfa við eitthvað allt annað en þeir gera í raun og veru.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Farþegi í Krítar-fluginu kemur Flensborgarkrökkunum til varnar – „Fólk er alltaf að gera sig að fórnarlömbum“

Farþegi í Krítar-fluginu kemur Flensborgarkrökkunum til varnar – „Fólk er alltaf að gera sig að fórnarlömbum“
Fréttir
Í gær

Ekið á hjólreiðamann

Ekið á hjólreiðamann
Fréttir
Í gær

Fleiri farþegar í hryllingsfluginu frá Krít stíga fram – Hóstandi útskriftarnemendur fóru fárveikir um borð – „Ég fékk bara innilokunarkennd og langaði að öskra“

Fleiri farþegar í hryllingsfluginu frá Krít stíga fram – Hóstandi útskriftarnemendur fóru fárveikir um borð – „Ég fékk bara innilokunarkennd og langaði að öskra“
Fréttir
Í gær

Flokksgæðingar raða sér í stjórnir ríkisfyrirtækja – Sjáðu hverjir eru hvar

Flokksgæðingar raða sér í stjórnir ríkisfyrirtækja – Sjáðu hverjir eru hvar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Að minnsta kosti 30 með Covid eftir útskriftarferð Flensborgar til Krítar – Gera ráð fyrir fjölgun smita – „Þetta var mikið fjör, helvíti mikið líf“

Að minnsta kosti 30 með Covid eftir útskriftarferð Flensborgar til Krítar – Gera ráð fyrir fjölgun smita – „Þetta var mikið fjör, helvíti mikið líf“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

200 manna samkomutakmarkanir og skemmtistaðir loka fyrr

200 manna samkomutakmarkanir og skemmtistaðir loka fyrr
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Örlagafundurinn dregst á langinn – Spáð 200 manna samkomutakmörkunum

Örlagafundurinn dregst á langinn – Spáð 200 manna samkomutakmörkunum