Tekist er á í þjóðmálaumræðunni um hæfi Jens Garðars Helgasonar, þingmanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, til að taka þátt í umræðum um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar, en Jens hefur beitt sér mjög gegn frumvarpinu.
DV fjallaði á þriðjudaginn um kvótaarf barna Jens Garðars, í Orðinu á götunni: „Eskja Holding er að uppistöðu í eigu tveggja einstaklinga, hjónanna Þorsteins Kristjánssonar og Bjarkar Aðalsteinsdóttir, dóttur Aðalsteins Jónssonar, sem kallaður var Alli ríki . Stjórnarformaður Eskju er dóttir hjónanna, Erna Þorsteinsdóttir, fyrrverandi eiginkona Jens Garðars Helgasonar. Börn þeirra eru því á meðal erfingja Eskju.
Samstæðan velti 15,3 milljörðum króna í fyrra og rekstrarhagnaður var 4,4 milljarðar króna. Hreinn hagnaður ársins eftir skatta og gjöld var þrír milljarðar og eigendur fengu 1,2 milljarða króna í arð, þrátt fyrir að engar loðnuveiðar hefðu átt sér stað árið 2024.“
Jens Garðar hefur sagt það vera heilaga skyldu sína að stöðva veiðigjaldafrumvarpið en pistlahöfundur Orðsins á götunni segir að þar sé hann fyrst og fremst að tala um skyldu sínar sem faðir kvótaerfingja en ekki skyldur þingmanns við þjóðina.
Vísir vakti athygli á Facebook-færslu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, sem er fyrrverandi þingmaður og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún segir að Jens Garðar eigi ekki að taka þátt í umræðum um veiðigjöld. Ragnheiður segir:
„Það er nokkuð ljós í mínu huga að varaformaður Sjálfstæðisflokksins á ekki og hefði ekki átt að taka þátt í umræðum um veiðigjöld vegna hagsmunaárekstra. Erum við Sjálfstæðismenn orðnir algjörlega ólæsir á viðbrögð fólks í landinu?“
Í svari við fyrirspurn Vísis segist Jens Garðar ekki vera vanhæfur til að taka þátt í umræðunni: „Þetta er skattafrumvarp og auðvitað taka þingmenn til máls um það, alveg eins og þeir gera í umræðum um tekjuskatt, sem hefur bein áhrif á hvern og einn þingmann persónulega. Hann segir ennfremur: „Þetta er bara mín prinsippafstaða til málsins og hún hefur ekkert með mín fjölskyldutengsl að gera. Ég og barnsmóðir mín skildum fyrir sautján árum.“
Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er ósáttur við ummæli Ragnheiðar. Hann deilir frétt Vísis á Facebook-síðu sinni og skrifar:
„Einkar ósmekklegt að draga börn inn í pólitíska umræðu. Þar liggja mörkin hjá öllu siðmenntuðu fólki. En guð gaf víst ekki meira vit…“
Egill Helgason fjölmiðlamaður lýsir sig ósammála Tryggva og skrifar í ummælum undir henni:
„Þarna eru gríðarlegir hagsmunur fyrir manninn og fjölskyldu hans – þetta er einfaldlega augljós hagsmunaárekstur og ekkert óeðlilegt við að ræða það.“
Margrét Tryggvadóttir, formaður Rithöfundasambandsins, skrifar:
„Er þetta ekki fullorðið fólk? Yngsti afkomandinn fæddur 2005. Gott hjá Haddý að benda á það augljósa.“