fbpx
Mánudagur 19.maí 2025
Fréttir

Íslendingum á leið til Bretlands stendur ekki til boða sama þjónusta og Bretum á leið til Íslands

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 19. maí 2025 14:00

Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fram kemur í nýrri ákvörðun Fjarskiptastofu, vegna kvörtunar neytanda sem beindist að Símanum, að íslenskum símafélögum sé frjálst að leggja þau reikigjöld (e. roaming) fyrir netnotkun, símtöl og sms-skilaboð í farsímum sem þau vilja á viðskiptavini sem ferðast til Bretlands og nota síma sína þar. Hins vegar kemur fram í ákvörðuninni að vitað sé til þess að a.m.k. sum bresk símafélög bjóði sínum viðskiptavinum sem ferðast hingað til lands upp á sömu reikigjöld og þeir eru rukkaðir um í Bretlandi. Einnig kemur fram að norskir farsímanotendur séu rukkaðir um sömu reikigjöld í Bretlandi og í Noregi.

Kvörtunin var lögð fram til Fjarskiptastofu í janúar síðastliðnum en í henni kemur fram að eftir að Bretland yfirgaf Evrópusambandið hafi Síminn hætt að bjóða í Bretlandi þjónustuna „Roam Like Home“ (sem þýðir að lögð eru á sömu reikigjöld og ef viðkomandi sími væri notaður í heimalandinu) ólíkt því sem enn gildi hjá íslenskum fjarskiptafyrirtækjum innan EES. Í staðinn bjóði Síminn upp á sérstakan útlandapakka sem kosti um 1.000 krónur á dag þegar þjónustan sé notuð. Hins vegar veiti bresk fjarskiptafyrirtæki sínum viðskiptavinum Roam Like Home þegar þeir ferðist til Íslands.

Svipað hjá flestum en ekki öllum

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðum íslensku símafyrirtækjanna eru þau flest á svipuðum slóðum og Síminn þegar kemur að reikigjöldum í Bretlandi. Nova býður upp á minnst 890 krónu pakka á dag (með 500 megabætum inniföldum). Vodafone rukkar 990 krónur á dag fyrir sama gagnamagn og eins og fram hefur komið er gjaldið 1.000 krónur á dag hjá Símanum en þá er sama gagnamagn innifalið og hjá tveimur fyrrnefndu félögunum.

Hringdu býður hins vegar upp á sömu reikigjöld í Bretlandi og í ríkjum EES og rukkar mánaðargjald en ódýrasti pakkinn kostar 1.990 krónur á mánuði og þar er 5 gígabæta gagnamagn innifalið.

Í svari Símans til viðskiptavinarins var fullyrt að hvert símafélag hefði heimild til að ákveða sínar gjaldskrár fyrir reikigjöld þegar ferðast væri á milli Íslands og Bretlands.

Þurfi ekki að hafa óbreytt

Í svari fyrirtækisins til Fjarskiptastofu kom fram að skilyrði um sömu reikigjöld í Bretlandi og á Íslandi giltu ekki lengur eftir úrsögn fyrrnefnda landsins úr Evrópusambandinu (ESB). Bretland væri þar með ekki lengur hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Að sama skapi gildi þessar reglur ekki heldur í Bretlandi. Síminn þurfi að greiða gjöld fyrir slíka notkun þegar viðskiptavinir fari til útlanda og gildi það sama hvort slíkt sé innan eða utan EES. Þá þurfi að tryggja viðskiptasambönd við erlend fyrirtæki til að gera reikiþjónustu mögulega, og taki það ekki eingöngu til fjarskiptafyrirtækja. Að veita slíka þjónustu sé ekki án kostnaðar fyrir fjarskiptafyrirtæki, óháð reglum ESB.

Vildi Síminn meina að ef Bretland og önnur lönd utan EES t.d. Bandaríkin yrðu sett undir „Roam like home“ væri kostnaðinum velt yfir á alla aðra viðskiptavini. Vildi Síminn enn fremur meina að fyrirtæki innan EES sem séu öll margfalt stærri og með margfalda veltu gætu ákveðið sín kjör á öðrum viðskiptalegum forsendum. Fullyrti Síminn að flest bresku símafyrirtækin væru farin að innheimta fyrir reiki innan EES. Sum fyrirtækjanna bjóði margvíslega pakka sem innihaldi EES reiki, þ.e. viðskiptavinurinn greiði fyrir notkunina þar sem áskrift án reikis sé ódýrari en áskrift með reiki.

Bætti Síminn því við að bresk símafélög bjóði upp á pakka þar sem rukkað sé það sama fyrir reiki í EES-löndum og í Bretlandi ef viðkomandi bindi sig í viðskipti við félagið í 1-2 ár en íslenskum símafélögum sé ekki heimilt samkvæmt lögum hér á landi að bjóða upp á slíka samninga. Stóð Síminn fast á því að væru settar reglur um sömu reikigjöld á milli landanna væri það mun meira íþyngjandi fyrir íslensk símafyrirtæki en bresk.

Reglurnar

Í niðurstöðu Fjarskiptastofu er minnt á að reglugerðin „Roam lika home“ um að greiða skuli innanlandsverð fyrir reiki, sé ferðast innan EES hafi tekið gildi 2017, en gildi ekki lengur í Bretlandi eftir úrsögn þess úr ESB. Því þurfi símafélög í EES-ríkjum ekki að bjóða viðskiptavinum sem ferðist til Bretlands upp á reiki án aukakostnaðar og það sama gildi um bresk símafélög þegar viðskiptavinir þeirra ferðist til landa EES. Gjöld fyrir reiki geti verið mismunandi eftir fjarskiptafyrirtækjum og sum þeirra bresku hafi kosið að halda áfram að bjóða upp á reiki án aukakostnaðar á meðan önnur hafi tekið upp reikigjöld á ný.

Fjarskiptastofa segir að í samkomulagi Bretlands við Noreg og Ísland, sem tók gildi í júlí 2023, sé kveðið á um hámarksheildsöluverð alþjóðlegrar reikiþjónustu. Undir því séu símtöl, sms-skilaboð og gagnamagn. Í samkomulaginu sé kveðið á um hver hámarksgjöld, sem veitandi almennrar fjarskiptaþjónustu í öðru ríkinu geti lagt á veitanda almennrar fjarskiptaþjónustu í hinu ríkinu fyrir reikiþjónustu í heildsölu. Ekkert sé hins vegar minnst á gjöld til neytenda í smásölu.

Fjarskiptastofa segir að Noregur hafi hins vegar gengið lengra en samkomulagið kveði á um og hafi skyldað símafélög þar í landi til að bjóða viðskiptavinum upp á sömu reikigjöld þegar þeir eru staddir í Bretlandi og þeir njóta heima í Noregi. Þetta hafi íslensk stjórnvöld hins vegar ekki gert.

Hámarkið

Í niðurstöðunni ítrekar Fjarskiptastofa að þar sem áðurnefndur samningur Bretlands, Íslands og Noregs kveði ekkert á um reikigjöld í smásölu heldur aðeins heildsölu skyldi fjarskiptalög ekki íslensk símafyrirtæki til að bjóða neytendum upp á sömu reikigjöld í Bretlandi og þeim stendur til boða á Íslandi og annars staðar innan EES.

Þegar kemur að þeirri staðreynd að að minnsta kosti sum bresk símafyrirtæki bjóða sínum viðskiptavinum upp á sömu reikigjöld á Íslandi, og annars staðar innan EES, og þeim stendur til boða í Bretlandi segir Fjarskiptastofa að í fjarskiptalögum sé hvorki kveðið á um skyldu íslenskra fjarskiptafyrirtækja til að veita sams konar skilmála og breskir þjónustuveitendur, né sé gerð krafa um fulla gagnkvæmni í reikisamningum. Hvert fjarskiptafyrirtæki geri sína eigin samninga við breska samstarfsaðila, sem geti leitt til mismunandi verðlagningar og þjónustufyrirkomulags.

Niðurstaðan er því að Síminn hafi ekki brotið gegn fjarskiptalögum og beri engin skylda til að bjóða upp á innanlandsverð fyrir reikiþjónustu í Bretlandi.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Beina til eigenda að gæta að gæludýrunum í góða veðrinu

Beina til eigenda að gæta að gæludýrunum í góða veðrinu
Fréttir
Í gær

Byggði kastala til að vinna hjarta Ástu – „Það þurfti eitthvað alveg extra til að loka þessum ástarsamningi“

Byggði kastala til að vinna hjarta Ástu – „Það þurfti eitthvað alveg extra til að loka þessum ástarsamningi“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Einar óttast að lýðræðið sé að hverfa – „Höfum við misst stjórnina?“

Einar óttast að lýðræðið sé að hverfa – „Höfum við misst stjórnina?“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Árásarmaður Rushdie fær þungan dóm

Árásarmaður Rushdie fær þungan dóm
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Skrímslið Brynjar Joensen enn einu sinni fyrir dóm – Sakfelldur fyrir brot gegn 15 stúlkum undir lögaldri

Skrímslið Brynjar Joensen enn einu sinni fyrir dóm – Sakfelldur fyrir brot gegn 15 stúlkum undir lögaldri
Fréttir
Fyrir 3 dögum

„Ef það hefði farið mikið hærra væri ég ekki endilega hér. Á hverjum degi þakka ég fyrir að vera á lífi“

„Ef það hefði farið mikið hærra væri ég ekki endilega hér. Á hverjum degi þakka ég fyrir að vera á lífi“