Afar sár og þungbær minning leitar á Sigurð Árna Reynisson, fyrrverandi lögreglumann, sem hann deilir í persónulegum pistli á Vísir.is.
Sigurður kom að ungum dreng sem hafði tekið eigið líf og þurfti Sigurður síðan að tilkynna foreldrum hans um harmleikinn. Hann segir að við þær aðstæður hafa verið sá sem hélt ró sinni á meðan aðrir misstu tökin. En hann hefur ekki losnað undan þessari reynslu. Tilviljun olli því að það kom í hans hlut að vera með ættingjum hins látna en hann veltir því fyrir sér hvort þar hafi þó einhver æðri tilgangur ráðið för. Við grípum niður grein Sigurðar:
„Ég var á vakt á höfuðborgarsvæðinu þegar útkall barst um manneskju í lífshættu. Við settum bláu ljósin á og ókum eins hratt og við máttum. Þegar við komum á vettvang, örfáum augnablikum á undan sjúkraflutningamönnunum, hlupum við inn í íbúðina. Þar blasti við okkur drengur á grunnskólaaldri sem hafði tekið eigið líf og systir hans hélt undir fætur hans og reyndi að bjarga honum.
Ég man lyktina, þögnina á undan ópinu og hvernig tíminn stoppaði. Síðan komu ættingjar og faðirinn fyrstur. Ég sá hvernig hann brotnaði þegar hann áttaði sig á því hvað hafði gerst. Það hljóð sem kom frá honum var ekki grátur, heldur djúpt og hrátt hljóð sem fór í gegnum mann eins og raflost. En það sem ég gleymi aldrei er þegar hann hringdi í eiginkonu sína til að segja henni frá. Ég heyrði örvæntinguna í rödd hans og svo öskrið úr símanum þegar móðirin skildi hvað hann var að reyna að segja. Það hljóð hefur fylgt mér allar götur síðan.
Það sem ég hef oft velt fyrir mér í kjölfar þessa atviks er hvers vegna ég endaði með ættingjunum. Ég var í raun reynslumeiri lögreglumaðurinn á vettvangi og hefði eðlilega átt að vera þar sem hörmungarnar áttu sér stað. En það varð öðruvísi. Það var eins og örlögin hefðu ráðið því að ég yrði sá sem sat eftir með fjölskyldunni, sá sem hlustaði, sá sem hélt ró þegar aðrir misstu tökin. Í dag velti ég því fyrir mér hvort það hafi kannski átt að vera þannig. Kannski var þetta ekki tilviljun heldur hluti af lífi mínu sem kennir mér enn í dag um mannleg tengsl, um sorg, og um það hvernig við bregðumst við þegar hjarta annars brotnar fyrir framan okkur.
Ég man að ég stóð þarna og fann tárin stíga upp en ég þerraði þau áður en þau komu fram. Ég sagði við sjálfan mig að ég yrði að halda andliti, vera fagmanneskjan í herberginu, kletturinn sem aðrir gátu hallað sér að. Ég reyndi að gera það sem rétt var, en það kostaði mig meira en ég vissi þá. Ég hélt áfram að lifa eins og ekkert hefði gerst. En það gerðist og það gerðist innra með mér.“
Þó að Sigurður hafi verið yfirvegaður á vettvangi þá hefur atvikið setið í honum. Hann bendir þá að sú fullyrðing að tíminn lækni öll sár taki ekki mið af lögmálum áfallastreitu:
„Það er oft sagt að tíminn lækni sárin, en áfallareynsla fylgir ekki þeirri reglu. Áfall er ekki bara það sem gerðist, það er það sem heldur áfram að gerast innra með manni. Það er þegar líkaminn festist í stundinni, þegar hugurinn reynir að halda áfram en taugakerfið man. Það getur tekið mánuði, ár, jafnvel áratugi að skynja að maður er enn að bregðast við einhverju sem átti sér stað fyrir löngu síðan. Þess vegna kemur sársaukinn stundum aftur fram þegar maður á síst von á því.“
Sigurður tekur fram að hann skrifi ekki til að fá vorkunn heldur vegna þess að hann veit að hann er ekki einn í þessum sporum. Margir sem starfa sem viðbragðsaðilar sitji uppi með reynslu sem ekki hefur verið unnið úr:
„Við þurfum að tala um þetta. Við þurfum að skapa rými þar sem lögreglumenn, slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn o.fl. geta unnið úr reynslu sinni án þess að óttast fordóma eða faglegt vantraust. Handleiðsla og sálræn eftirfylgni eiga ekki að vera forréttindi, þau eiga að vera hluti af starfsháttum,“ segir Sigurður ennfremur en grein hans í heild má lesa hér.
Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.