Rétt fyrir mánaðamótin síðustu var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál gegn manni sem ákærður er fyrir stórfellt fíkniefnabrot.
Þann 10. apríl á þessu ári gerði lögregla leit í bílskúr mannsins í Reykjavík og var hann þar með rúmlega 8 kg af marihúana og 230 g af amfetamíni.
Auk fíkniefnanna voru ýmis tæki haldlögð og krafist er upptöku á þeim ásamt fíkniefnunum. Meðal annars er þar um að ræða svokallað „Buddies Pump Box“ en það er tæki til að útbúa sígarettur eða jónur. Einnig voru haldlagðar tvær milligrammavogir og svartur Samsung Galaxy sími.
Ekki kemur fram í ákærunni hversu hreint amfetamínið var en 230 g af hreinu amfetamíni gefa um 2.300 neysluskammta.