Austurríski ofurhuginn Felix Baumgartner er látinn, 56 ára aldri. Hann lést eftir að hafa lent í slysi í svifvængjaflugi á Ítalíu. Samkvæmt austurrískum miðlum var Baumgartner að fljúga svifvængju við bæinn Porto Sant’Elpidio, skammt frá Ancona. Í fluginu virðist hann hafa orðið fyrir einhverskonar aðsvifi eða veikindum sem gerði það að verkum að hann missti stjórn á svifvængjunni og brotlenti harkalega í sundlaugagarði ónefnds hótels.
Lést ofurhuginn samstundis við brotlendinguna og þá slasaðist starfsmaður hótelsins einnig þegar hann varð undir svifvængjunni.
Baumgartner öðlaðist frægð fyrir fjölmörg áhættuatriði sem hann framkvæmdi í gegnum árin. Hann hefur stokkið fram af mörgum hæstu byggingum heims í fallhlíf og eitt sinn brunaði hann í fallhlíf yfir Ermasundið.
Atriðið sem hann öðlaðist hins vegar heimsfrægð fyrir var þegar hann sveif upp í ytri mörk gufuhvolfsins í helíumblöðru og stökk til jarðar í fallhlíf árið 2012. Metið stendur enn sem hæsta stökk nokkurs manns en stökkið var úr 39 kílómetra hæð.
Þegar hraðinn var mestur á Baumgartner mældist hann 1.342 kílómetrar á klukkutímann og rauf hann því hljóðmúrinn, fyrstur manna.
Sjálft stökkið stóð yfir í fjórar mínútur og 19 sekúndur áður og er óhætt að segja að heimsbyggðin hafi tekið andköf yfir hugrekki Baumgartner því engu mátti muna að illa færi. Eitthvað fór nefnilega úrskeiðis í stökkinu og Baumgartner hringsnerist á ógnarhraða.
Hann náði hins vegar áttum að nýju og lenti svo heilu og höldnu í Nýju Mexíkó.
Segja má að Baumgartner hafi lifað fyrir áhættuatriðin og adrenalínið en hann giftist aldrei og lést barnlaus.