fbpx
Laugardagur 24.maí 2025
Fréttir

Halldóra var sökuð um tálmun og segir öryggi barns ekki tryggt í umgengni föður – Eftirlit í höndum meðvirkrar móður og félaga í trúarsöfnuði

Ritstjórn DV
Laugardaginn 24. maí 2025 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halldóra Lillý Jóhannsdóttir lögfræðingur hefur ýmislegt að athuga við fyrirkomulag umgengni barns við það foreldri sem ekki hefur forsjá með barninu. Telur húm misbrest á því að öryggi barna sé tryggt í umgengni. Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísir.is og dæmi sem Halldóra rekur lýtur að henni sjálfri:

„Í íslenskum barnarétti er gengið út frá því að barn eigi rétt á að þekkja og umgangast báða foreldra. Sú meginregla á sér stoð í barnalögum og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og er almennt óumdeild. Það sem hins vegar vekur athygli mína – bæði sem foreldris og lögfræðings – er hvernig þessi meginregla birtist í framkvæmd: Hver ber raunverulega ábyrgðina þegar öryggi barns skarast á við umgengnisrétt?

Í mínu tilfelli tók ég ákvörðun um að vernda barn mitt fyrir þeim áhrifum sem fylgja neyslu, óstöðugleika og ofbeldissögu. Þannig upplýsti ég barnið ekki um þessar aðstæður, heldur kaus fremur að skapa ró og öryggi og hlífa barninu við ótta sem það hafði ekki forsendur til að vinna úr. Afleiðingin var sú að barninu leið ekki illa – að minnsta kosti ekki með þeim hætti sem krefst inngrips í augum dómstóla. Þessi skortur á kvíðaviðbrögðum var túlkaður sem vísbending um að hætta væri ekki til staðar. Að túlka kvíðaleysi sem skort á hættu – án þess að meta hvort barnið hafi yfirhöfuð verið upplýst um hættuna – skekkir allt mat á aðstæðum og gerir verndina að sökudólgi. Þrátt fyrir staðfest gögn um áframhaldandi neyslu, brotasögu og vanefndir á fyrri forsendum dómstóla, komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að umgengni gæti átt sér stað samkvæmt dómi, með ákveðnu eftirliti, fyrst um sinn.“

Halldóra greinir frá því að í kjölfar þess að barnföður hennar var veitt umgengni við barn þeirra hafi verið treyst á meðvirka móður hans sem eftirlitsaðila, en hún hafi orðið fyrir ofbeldi af hans hálfu. Einnig var byggt á eftirliti félaga mannsins í sértrúarsöfnuði.

Var sökuð um tálmun

Halldóra segist hafa stöðvað umgengni vegna vímuefnaneyslu barnsföðurins. Við mat dómstólsins á edrúmennsku mannsins hafi hins vegar verið byggt á óstaðfestum fullyrðingum en ekki gögnum:

„Annar þáttur sem afhjúpar skýrt ósamræmið í framkvæmd réttinda barna, er mat á edrúmennsku en, í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar kemur fram að ég stöðvaði umgengni árið 2023 vegna vímuefnaneyslu hins foreldrisins, sem verður til þess að ég greinist tálmari. Það skýtur hins vegar skökku við, þegar í sakadómi gegn foreldrinu frá 2024 kemur fram að í blóðsýni þess hafi mælst amfetamín 325 ng/ml, ketamín 83 ng/ml, O-desmetýltramadól 130 ng/ml, tramadól 400 ng/ml, alprazólam 18 ng/ml, díazepam 115 ng/ml, nordíazepam 190 ng/ml og oxýkódon 65 ng/ml. Skringilegt er að í dómi Hæstaréttar nr. 25/2025 er gengið út frá því að viðkomandi sé nú edrú, án þess að það sé rökstutt með skjalfestum gögnum og jafnvel þótt staðfestar upplýsingar um neyslu á sama tímabili liggi fyrir í öðrum dómi.

Slíkt misræmi – að byggja á óstaðfestri fullyrðingu um bata, en horfa fram hjá fyrirliggjandi staðfestum gögnum um skaðlega hegðun – grefur undan röksemdafærslunni og veikir niðurstöðuna. Í tilvikum sem þessum ætti sönnunarbyrðin að hvíla á því foreldri sem krefst umgengni og fullyrðir að það sé edrú. Gerum bara kröfu um það fyrir börn.“

Halldóra segir sönnunarbyrði varðandi öryggi barnsins við umgengni forsjárlausa foreldrisins í raun vera sett á herðar forsjárforeldrisins. Hún segir réttarkerfið bregðast barninu:

„Þegar kerfið krefst þess að foreldrar afhendi börn sín í aðstæður, sem hvorki fósturforeldrar né barnaverndaryfirvöld myndu samþykkja, er ekki lengur um einkamál að ræða, heldur atlögu gegn viðkvæmum hópi – atlögu sem dafnar vel í stefnu stjórnvalda. Það snertir almannahagsmuni, enda grefur slík framkvæmd undan trausti á réttarkerfinu og þegar réttarkerfið verndar ekki barnið, glatar það líka tilkalli sínu til virðingar.“

Greinina má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þurftu að neyða hvalveiðimenn til að afhenda veiðidagbækur

Þurftu að neyða hvalveiðimenn til að afhenda veiðidagbækur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Árásarmaðurinn á Skyggnisbraut í gæsluvarðhaldi – Árásarþoli með alvarlega áverka en ekki í lífshættu

Árásarmaðurinn á Skyggnisbraut í gæsluvarðhaldi – Árásarþoli með alvarlega áverka en ekki í lífshættu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Læknar segja öryggi sjúklinga ógnað fái aðrir að ávísa lyfjum – „LÍ telur þessa fullyrðingu dapurlega og í versta falli hlægilega“

Læknar segja öryggi sjúklinga ógnað fái aðrir að ávísa lyfjum – „LÍ telur þessa fullyrðingu dapurlega og í versta falli hlægilega“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bassi Maraj ákærður fyrir líkamsárás á leigubílstjóra – Hafi vafið posasnúru um háls hans og kýlt í ennið

Bassi Maraj ákærður fyrir líkamsárás á leigubílstjóra – Hafi vafið posasnúru um háls hans og kýlt í ennið