Tvær ástralskar konur sem voru nýlega á ferðalagi á Íslandi hafa leitað til lögmanns vegna viðskipta sinna við leigubílstjóra hér á landi. Segir lögmaðurinn að ferð kvennanna hafi endað með ógnandi framkomu bílstjórans í þeirra garð og hann rukkað þær um þrefalt hærra verð en þeim hafi upphaflega verið sagt að ferðin myndi kosta og leigubílstjórinn hafi síðan á endanum skilið þær eftir við Bláfjallaveg seint að kvöldi í myrkri og við þeim hafi blasað fátt annað en hraun.
Brynjólfur Ívarsson lögmaður hefur tekið mál kvennanna að sér. Hann segir í samtali við DV að konurnar hafi tekið leigubílinn frá miðbæ Reykjavíkur og viljað fara í norðurljósaferð sem átti að hefjast við Bláfjallaveg. Leigubílstjórinn, sem sé af sómölsku bergi brotinn, hafi þóst starfa fyrir Hreyfil og gefið þeim upp að áætlað verð fyrir ferðina væri 7.000 krónur.
Hann hafi hins vegar keyrt þær upp á skíðasvæðið í Bláfjöllum en síðan ekið þeim á réttan áfangastað en þá hafi þær verið búnar að missa af norðurljósaferðinni og endað þá á mannlausum stað úti í hrauni. Fyrir þetta hafi leigubílstjórinn rukkað konurnar með ógnandi hætti um 27.500 krónur, um rétt tæplega þrefalt hærra verð en ferðin átti upphaflega að kosta.
Til að komast aftur til baka þurftu konurnar að hringja á annan leigubíl. Brynjólfur segir að sú ferð hafi kostað konurnar 11.000 krónur til viðbótar en sá leigubílstjóri hafi verið mjög almennilegur við þær. Það hafi verið eðlilegt verð miðað við að komið var fram á þann tíma sólarhringsins að næturtaxti hafði tekið gildi og lengd ferðarinnar.
Ljóst er að þetta er alls ekki fyrsta frásögnin af því að leigubílstjórar sem farið hafi að aka leigubíl eftir að slakað var á löggjöf um akstur slíkra bifreiða hafi svindlað á erlendum ferðamönnum. Brynjólfur segir að gera þurfi eitthvað til að bæta þessa stöðu og úrræði fyrir þá ferðamenn sem verði fyrir slíku:
„Það er ekki hlaupið að því fyrir ferðamenn að leita réttar síns eftir svona hér á landi en ég geri það með bros á vör. Það versta er að þetta virðist vera daglegt brauð og ekkert ber á snemmtækri íhlutun jafnvel þó að menn beinlínis geri út á að svindla á ferðamönnum.“
Aðspurður um hver næstu skref verði í málinu segir Brynjólfur að það verði fyrst og fremst að leggja fram einkaréttarkröfu hjá lögreglu en það væri að hluta til hægt að leita til kærunefndar vöru- og þjónustukaupa. Gallinn sé að þjónustuveitendur séu ekki bundnir af úrskurðum hennar undir ákveðnum kringumstæðum. Það sé viðvarandi galli á íslensku réttarkerfi að það sé erfitt að eiga við smáar kröfur. Það sé lítill munur á því að stefna einhverjum til greiðslu 100.000 króna eða 100 milljóna króna og þegar kröfurnar séu litlar þá verði málskostnaðurinn margfaldur á við hagsmunina sem séu í húfi. Brynjólfur segir að lokum:
„Það væri grínlaust gott að fá Judge Judy í heimsókn.“
Þar er Brynjólfur að vísa til bandaríska dómarans Judith Sheindlin sem er alltaf kölluð þessu nafni og heldur úti samnefndum sjónvarpsþætti þar sem hún sker úr um ýmis konar ágreiningsmál sem þó eru það smá að hægt er að leysa úr þeim í einum þætti. Hvort koma verði á slíku úrræði á Íslandi verður hins vegar ekki skorið úr um hér.