„Þrátt fyrir góðan vilja virðast þingstörfin alltaf detta í sömu fyrirsjáanlegu hjólförin. Meirihlutinn keppist við að koma málum í gegn og minnihlutinn reynir að hægja á – oft með einhverjum tafarleikjum, stundum með þaulskipulögðu málþófi. Jafnvel í málum sem allir flokkar eru sammála um að séu brýn og nauðsynleg,“ segir María Rut í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Hún segir að málþóf geti verið réttmætt stjórntæki í sérstökum tilvikum, en á Íslandi hafi það þróast yfir í fyrirsjáanlega taktík sem ítrekað truflar störf þingsins, dregur úr málefnalegri umræðu og vekur tortryggni meðal almennings.
María Rut segir að þegar hún spyrji þingmenn með meiri reynslu hvers vegna þetta er svona sé svarið yfirleitt einfalt: „Svona er þetta bara.“ Og þegar hún spyr þingmenn hvort þeim finnist þetta vera besta leiðin til að sinna þingstörfum svari þau neitandi.
„Ég heyri oft að ásýnd Alþingis út á við virki fremur kjánaleg. Þegar ég reyni að útskýra þessa leikjafræði fyrir fólki sem lifir hvorki né hrærist í hringiðu Alþingis botnar það ekkert í þessu. Skiljanlega. Fólki hreinlega blöskrar að sjá þjóðþrifamál og mikilvægar úrbætur sitja á hakanum á meðan þessi leikur gengur yfir,“ segir María sem vill meina að ein einföld breyting væri að koma á reglum um tíma og fjölda ræðna sem hver flokkur fær í umræður um mál.
„Auðvitað með það fyrir augum að minnihlutinn geti sinnt aðhaldshlutverki sínu af krafti. En með skýrum ramma. Þannig eykst fyrirsjáanleiki og umræðan sem birtist í þingsal dýpkar. Fleiri sjónarmið komast að, fyrirsjáanleiki þingstarfa eykst og gæði umræðunnar sömuleiðis. Ísland er eitt af örfáum löndum í Evrópu þar sem málþóf getur farið fram svo til hindrunarlaust. Í nánast öllum öðrum löndum eru fastmótaðri ræðureglur og fundarstjórn en á Íslandi, sem gerir málþóf að mjög ólíklegu stjórntæki þar,“ segir hún.
María endar grein sína á þeim orðum að þegar almenningur upplifi að þingið sé vettvangur pólitískra leikja frekar en lausna hafi það áhrif á traust til Alþingis.
„Þegar málefnaleg rökræða víkur fyrir taktískum töfum missir lýðræðið ekki bara slagkraft – það missir tiltrú. Það varð mikil nýliðun í síðustu alþingiskosningum. Það væri hressandi ef okkur tækist að sammælast um skilvirkari og jafnvel skemmtilegri leiðir til að tryggja virka lýðræðislega umræðu á Alþingi. Gamlar hefðir og pólitísk leikrit tefja lýðræðislega ákvarðanatöku. Ef Alþingi á að vera vettvangur virðingar og lýðræðis þá hljótum við að spyrja okkur: Þjónar þessi nánast séríslenska leið fólkinu í landinu eða leikjafræði stjórnmálaflokkanna?“