Ef marka má sjálfvirkt spákort Veðurstofu Íslands verður léttskýjað og 13 stiga hiti í Reykjavík klukkan 14 á morgun þegar gangan hefst.
Gengið verður af stað frá Hallgrímskirkju og eftir Skólavörðustíg, Bankastræti, Lækjargötu og Fríkirkjuvegi.
Gangan endar svo við gatnamót Fríkirkjuvegar og Skothúsvegar en atriði halda svo áfram inn Sóleyjargötu og inn í Hljómskálagarðinn þar sem útitónleikar fara fram.
„Hægviðri eða hafgola á morgun, skýjað með köflum og þurrt að kalla, en skúrir síðdegis inn til landsins. Hlýnar fyrir norðan, en hiti breytist lítið syðra,“ segir í textaspánni fyrir allt landið á vef Veðurstofunnar.
Og í textaspánni fyrir höfuðborgarsvæðið sem gildir til miðnættis annað kvöld segir: „Hæg breytileg átt eða hafgola og bjart með köflum. Hiti 9 til 15 stig.“