Eigendur gistiheimilisins Brunnhóls á Mýrum í Hornafirði hafa myndbirt erlendu glæpamennina sem settust að sumbli á gistiheimilu í gærkvöldi, til að kanna aðstæður, og brutust síðan inn síðar um nóttina. Höfðu þeir á brott með sér peningaskáp auk þess að valda margvíslegum skemmdum á húsnæðinu eins og lesa má um í fyrri frétt.
„Fjandinn hafi það þótt e.t.v. þetta brjóti persónuverndarlög. Þessir eru rúmlega búnir að fara inn á persónuverndarsvæði okkar,“ skrifar Sigurlaug Gissurardóttir, sem á Brunnhól ásamt eiginmanni sínum Jóni Kristni Jónssyni.
Birtir hún síðan nokkrar myndir og myndbönd af misyndismönnunum á Facebook-síðunni Bakland Ferðaþjónustunnar og varar þannig kollega sína við ef heimsókn er í vændum.
Ein af þeim sem gerir athugasemd við færslu Sigurlaugar er Hanna Björg Sævarsdóttir, sem rekur Hótel Höfn á Hornafirði. DV greindi frá því í byrjun mars síðastliðinn að par hafi komið inn á hótelið, gert vel við sig í mat og drykk og endað síðan með að skrá veigarnar á herbergi hótelsins þrátt fyrir að gista ekki á hótelinu. „Þetta er nákvæmlega sami einstaklingur og kom til okkar,“ segir Hanna Björg.
Þá greinir starfsmaður Olís frá því að mennirnir hafi tekið bensín á stöð sinni og hafi vakið athygli fyrir að borga allt með dollurum, rétt eins og í innbrotinu á Brunnhól.