fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Fréttir

Ofbeldi gegn stúlkum á Laugalandi – „Trauðla hef ég upplifað það jafn oft að viðmælendur mínir hafi grátið í eins miklum mæli“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 11. júní 2024 14:00

Meðferðarheimilið Laugaland. Mynd: Auðunn Níelsson/Fréttablaðið

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blaðamaðurinn Freyr Rögnvaldsson segir það vera staðreynd sem legið hafi fyrir lengi, að stúlkur sem dvöldust á vistheimilinu Laugalandi (áður Varpholt) í Eyjafirði, hafi verið beittar kerfisbundnu ofbeldi, andlegu og líkamlegu, um árabil. Yfirvöld hafi brugðist í máli þessarar stúlkna og geri það enn þrátt fyrir að skjalfestar niðurstöður liggi fyrir um ofbeldið. Stúlkurnar hafi ekki fengið aðstoð fagaðila við að vinna úr ofbeldinu, þær hafi ekki fengið greiddar skaðabætur og yfirvöld virðist ætla að sópa ofbeldinu undir teppið.

Freyr birtir aðsenda grein á Vísir.is um málið. Þar rifjar hann upp rannsóknarvinnu sína og greinaflokk um Laugaland árin 2021-2022, er hann starfaði á Stundinni. Segir hann að staðreyndir málsins hafi legið fyrir þegar í byrjun árs 2021, en núna, þremur árum síðar, hefur ekkert verið gert til að bæta stúlkunum skaðann. Freyr skrifar:

„Gögn sem ég fékk afhent frá opinberum aðilum, í mörgum tilvikum eftir mikla eftirgangssemi, staðfestu í veigamiklum atriðum frásögn kvennanna sem fyrst stigu fram og greindu frá ofbeldinu. En það sem hafði öllu meiri áhrif á mig en þau gögn, sem þó voru sláandi vitnisburður um vangetu og ábyrgðarleysi íslensks barnaverndarkerfis, var sá gríðarlegi fjöldi kvenna sem við mig hafði samband og lýsti hræðilegri upplifun sinni af vistuninni á Laugalandi og í Varpholti. Og ég ræddi ekki bara við konur sem höfðu verið vistaðar þar heldur einnig foreldra þeirra. Á blaðamannaferli mínum hef ég oftsinnis fjallað um erfið mál, en trauðla hef ég upplifað það jafn oft að viðmælendur mínir hafi grátið í eins miklu mæli og í téðum viðtölum.

Áður en yfir lauk höfðu sex konur til viðbótar stigið fram opinberlega í viðtölum sem ég birti í Stundinni og lýstu ofbeldi, niðurbroti, einangrun og yfirgangi sem þær höfðu orðið fyrir á meðan á vistun þeirra stóð. Meðal þeirra var Gyða Dögg Jónsdóttir sem var 15 ára og barnshafandi þegar hún var vistuð á Laugalandi, og lýsti því hvernig hún var ein og án alls stuðnings á fæðingardeildinni, fimmtán ára gömul, að fæða sitt fyrsta barn. Lítinn dreng sem hún síðan var lokuð með inni á heimilinu í aðstæðum sem engu barni, hvorki fimmtán ára né hvítvoðungi, hefði nokkurn tíma átt að bjóða upp á. Á endanum varð Gyða að gefa son sinn frá sér.“

Svört skýrsla en ekkert bólar á úrbótum

Ríkisstjórnin samþykkti í febrúar árið 2021 að láta gera rannsókn á því hvort börn sem höfðu verði vistuð í Varpholti og á Laugalandi hefðu verið beitt ofbeldi. Skýrsla var síðan birt um starfsemina í september árið 22. Sú skýrsla var svört og kom fram að stúlkurnar hefðu verið beittar kerfisbundnu andlegu ofbeldi. „Þó skýrsluhöfundar treysti sér ekki til að fullyrða um líkamlegt ofbeldi eru tilgreind dæmi um að því hafi verið beitt. Á því að stúlkurnar hafi einnig verið beittar kerfisbundnu, líkamlegu ofbeldi er hins vegar ekki nokkur efi, það veit ég,“ segir Freyr.

Freyr átelur stjórnvöld fyrir að koma stúlkunum ekki til hjálpar og bæta þeim skaðann þó að ofbeldið sem þær voru beittar sé staðfest í opinberri skýrslu. Lokaorð greinarinnar eru eftirfarandi:

„Íslensk yfirvöld hafa því haldið áfram að brjóta gegn konunum sem beittar voru kerfisbundnu ofbeldi, á ábyrgð yfirvalda, sem börn. Það virðast þau ætla að gera áfram. Það er ólíðandi og skammarlegt. Ég kalla á allt rétthugsandi fólk í landinu að mótmæla með fortakslausum hætti þessum skammarlega framgangi hins opinbera og krefjast réttlætis til handa konunum sem sættu ofbeldi sem börn á Laugalandi og í Varpholti.“

Sjá nánar á Vísir.is.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt