fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fréttir

Lára spyr hvaða rétt við höfum til að dæma annað fólk – „Sumt fólk treystir sér ekki til að hætta neyslunni“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 23. febrúar 2024 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er í liði með Árna. Ég vona að landlæknir og SÁÁ fari brátt að sjá að sú heftistefna og boðvaldstefna sem rekin hefur verið virkar ekki fyrir öll. Hún virkar fyrir sum, en bara alls ekki öll.

Þá er að mínu mati lag að mæta fólki af virðingu og með skilning að leiðarljósi. Ef það er gert er aldrei að vita nema þau sem fá slíka hjálp nái einhvers konar stöðugleika sem myndi þá leiða til frekari framfara og hver veit, jafnvel edrúmennsku einn daginn. Það væri þá á þeirra forsendum og á þeirra hraða,“

segir fjölmiðlakonan Lára Zulima Ómarsdóttir í færslu á Facebook.

Vísar Lára þar til máls Árna Tómasar Ragnarssonar gigtarlæknis, sem í desember var sviptur leyfi til að ávísa tilteknum lyfjum vegna þess að hann hafði ávísað morfínskömmtum til fólks með þungan og langt genginn fíknisjúkdóm.

Sjá einnig: Bjargvætturinn Árni sem var sviptur leyfi – „Ég er dálítið krumpaður eftir þessa afgreiðslu landlæknis, Ölmu Möller“

Árni Tómas Ragnarsson. Skjáskot RÚV.

Fjallað var um málið í Kastljósi á miðvikudag og fjallað hefur verið um það í hlaðvarpsþáttum Péturs Magnússonar, fréttamanns RÚV, sjá nánar hér.

Í Kastljósi segir Árni að kannski hafi hann ekki gert allt rétt en hann hafi verið eina úrræði þessa hóps, sem er um 60 langt leiddir fíknisjúklingar. „Það er svo langt því frá að ég haldi að það sem ég gerði hafi verið fullkomið, en ég var björgunarsveitin fyrir þetta fólk,“ segir hann.

Landlæknisembættið hefur gagnrýnt framferði Árna og bendir á að lyfin sem hann ávísar séu sterk morfínlyf sem geti verið stórhættuleg og valdið mjög alvarlegum sjúkdómum. Hann beiti aðferðum sem séu ekki ritrýndar og ekki sé hægt að líða það. Hann hafi verið beðinn um að breyta um stefnu en því hafi hann neitað. Þess vegna hafi hann verið sviptur leyfi til að ávísa þessum lyfjum.

Fólk eins og ég og þú 

„Fólk með fíknivanda er fólk eins og ég og þú. Sumt fólk treystir sér ekki til að hætta neyslunni, ekki frekar en sumt fólk treystir sér ekki til að borða minna þótt það sé of þungt eða hætta að reykja. Það ber að virða slíkar ákvarðanir fólks að mínu mati.

Ég er ein þeirra sem finnst að fólk sem á við vanda að etja vegna lífsstíls eigi jafnmikinn rétt á að fá aðstoð lækna til að líða betur og annað fólk,“ segir Lára.

Segir hún kröfuna um að fólk breyti um lífstíl of háværa og spyr hvaða rétt við höfum til að dæma annað fólk og skipa því að haga sér á einn eða annan hátt?

„Ef lyfjagjöf hjálpar fólki að líða betur og kemur í veg fyrir glæpi, hvað er þá athugavert við hana? Hvernig getur það verið hættulegra að læknir ávísi lyfi en að einstaklingur kaupi sér lyfið ólöglega?“

Segir Lára okkur eiga að komam fram við fólk af umhyggju og mæta því á þeirra forsendum. Sumt fólk eigi til dæmis erfitt með yfirboð og fari í mikla vörn ef ráðist er að þeim með boðum og bönnum.

Vantar úrræði

Í umfjöllun Kastljóss kom fram að Landlæknisembættið segir að til séu úrræði fyrir þetta fólk, helst á Vogi, þangað komi fólk í alls konar ástandi og það fái þjónustu sem feli ekki í sér skilyrðislaust bindindi. En samkvæmt heimildum Péturs Magnússonar fréttamanns er Vogur úrræði sem fæstir af skjólstæðingum Árna vilja nýta sér.

„Svo er annað í þessu, þau úrræði sem standa fólki með fíknivanda til boða eru ekki nógu mörg eða nógu öflug. Það vita öll sem hafa einhvern tímann þekkt einhvern sem glímir við slíkan vanda. Biðlistar eru langir og eftirfylgni lítil sem engin,“ segir Lára í færslu sinni.

„Á meðan svo er þá er ekkert vit í þeirri kröfu að öll séu edrú alltaf. Það er miklu betra fyrir samfélagið, og ódýrara, að læknar fylgist með lyfjagjöf og ávísi lyfjum á þessa ör örfáu einstaklinga heldur en að þau geri allt sem í þeirra valdi stendur til að komast yfir lyfin.

Og þau gera allt sem þau geta til að komast yfir lyfin. Stela, ljúga, svíkja, skemma. Þau vilja það ekki. Þau myndu gjarnan vilja sleppa öllu slíku. Þau eru gott fólk í grunninn en fíknin í þessi ópíóðalyf er bara öllu siðferði sterkari.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Jóhann á flótta undan réttvísinni – Ákærður fyrir vörslu og dreifingu barnaníðsefnis en mætir ekki fyrir dóm

Jóhann á flótta undan réttvísinni – Ákærður fyrir vörslu og dreifingu barnaníðsefnis en mætir ekki fyrir dóm
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Heiða neitaði að spila lag með Hallbirni Hjartarsyni – „Næsti hlustandi sem náði inn öskraði á mig“

Heiða neitaði að spila lag með Hallbirni Hjartarsyni – „Næsti hlustandi sem náði inn öskraði á mig“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fá ekki endurgreitt þrátt fyrir dónaskap fararstjóra

Fá ekki endurgreitt þrátt fyrir dónaskap fararstjóra
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Jón Sverrir er barnaníðingurinn í Dalslaug – Var búinn að ávinna sér traust 13 ára drengja í marga mánuði

Jón Sverrir er barnaníðingurinn í Dalslaug – Var búinn að ávinna sér traust 13 ára drengja í marga mánuði