Fimm einstaklingar hlutu í dag fangelsisdóma fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots sumarið 2023. Sá sem þyngsta dóminn hlaut, fjögurra ára fangelsi, sá um skipulagningu innflutningsins og gaf öðrum sakborningum fyrirmæli um þeirra aðkomu að málinu og greiddi þeim fyrir. Karlmaður sem hlaut vægstu refsinguna, sex mánaða fangelsi, var með fíkniefnin í bifreið sinni í íþróttatösku og í peningaskáp sem hann ásamt manninum sem þyngsta dóminn hlaut höfðu keypt í Costco nokkrum dögum áður en lögreglan fann efnin í bifreiðinni.
Fíkniefnin sem flutt voru til landsins voru falin í tveimur pakkningum inni í tölvuturni, sem pakkað var í pappakassa ásamt tölvuskjá, en sendingin kom hingað til lands með hraðsendingafyrirtækinu FedEx frá Bandaríkjunum. Fíkniefnin fundust fimmtudaginn 20. júlí við eftirlit tollvarða í aðstöðu tollgæslunnar í vöruhúsi Icetransport að Selhellu 9 í Hafnarfirði og lagði lögreglan hald á fíkniefnin sama dag, rannsakaði þau og skipti þeim út fyrir gerviefni sem komið var fyrir inni í tölvuturninum, ásamt hlustunarbúnaði og kom pakkanum fyrir á starfsstöð Fedex að Selhellu 9 í Hafnarfirði til afhendingar.
Sjá einnig: Íslensk kona og fjórir erlendir karlmenn ákærð í stóru fíkniefnamáli – Yngsti sakborningurinn aðeins 16 ára
Mohamed Hicham Rahmi og Sunneva Isis Hoffmann hlutu þyngstu dómana, hann fjögur ár og hún átján mánuði fyrir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots, með því að hafa í sameiningu sumarið 2023 staðið að innflutningi á tæpum tveimur kílóum af kókaíni með 87% styrkleika, ætluðum til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.
Mohamed kom að skipulagningu innflutningsins og var í samskiptum við óþekktan mann eða menn í gegnum samskiptaforritið Telegram, tímabilin 5. júlí til 18. júlí og 19. júlí til 24. júlí, auk þess sem hann gaf Sunnevu, og tveimur öðrum sakborningum peninga, fyrirmæli og leiðbeiningar, munnlega og í gegnum aðrar samskiptaleiðir varðandi fyrirkomulagið við sækningu pakkans, allt frá aðdraganda þess að pakkinn var sóttur og þar til ákærðu voru handtekin.
Sunneva átti, gegn peningagreiðslu og að undirlagi Mohamed, að útvega mann til að sækja pakkann, og fór síðan þriðjudaginn 25. júlí ásamt Mohamed, á bifreið í Mjódd í Reykjavík, þar sem þau hittu tvo aðra sakborninga og afhentu þeim peninga til að greiða fyrir pakkann.
Tveir sakborningar, bræður, sem voru undir lögaldri þegar brotin voru framin, 15 og 17 ára, og því ekki nafngreindir í dómi Héraðsdóms Reykjaness, voru ákærðir fyrir að taka við peningum, fyrirmælum og leiðbeiningum frá Mohamed og Sunnevu munnlega og í gegnum aðrar samskiptaleiðir, allt frá aðdraganda þess að pakkinn var sóttur og þar til ákærðu öll voru handtekin.
Fjórmenningarnir hittust í Mjóddinni, þaðan keyrðu bræðurnir með leigubifreið að starfsstöð Fedex í Hafnarfirði þar sem annar þeirra fór inn á starfsstöðina, sneri til baka og fór hinn þá inn til að sæja pakkann. Fjórmenningarnir hittust því næst við Breiðholtskirkju við Mjódd í Reykjavík, samkvæmt fyrirmælum frá ákærðu Mohamed og Sunnevu, þar sem annar bræðranna yfirgaf leigubifreiðina, með pakkann meðferðis, fór að kirkjunni þar sem hann opnaði pakkann, henti tölvuturninum í ruslatunnu, gekk að hvítri BMW bifreið sem staðsett var á bifreiðastæði við Breiðholtskirkju, og ræddi þar við Mohamed og Sunnevu. Þau þrjú voru síðan handtekin við kirkjuna, en hinn bróðirinn var handtekinn í leigubifreið á Miklubraut við Klambratún.
Fjórði karlmaðurinn og Mohamed voru ákærðir fyrir fíkniefnalagabrot, með því að sá fyrrnefndi hafði, að beiðni ákærða Mohamed eiganda efnanna, í vörslum sínum í farangursrými bifreiðar sinnar fíkniefni sem ætluð voru til sölu og dreifingar, sem lögregla fann í íþróttatösku og í peningaskáp, við leit í bifreiðinni þriðjudaginn 1. ágúst.
Mohamed var einnig ákærður fyrir fíkniefnalagabrot, brot gegn lyfjalögum og lögum um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum, með því að hafa miðvikudaginn 26. júlí á þáverandi dvalarstað sínum haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingaskyni samtals 234, 45 g af kókaíni, þar af 223,57 g af kókaíni með 59- 60 % styrkleika, 498,33 g af hassi, þar af 488,88 g af hassi með 347 mg/g af magni tetrahýdrókannabínóls að styrkleika, 4,75 g metamfetamíni, 555 stykki af alprazolam Krka 1 mg töflum og 4 ml af testosteron en allt framangreint fann lögregla við leit í íbúðinni.
Sunneva og karlmaðurinn sem var með efnin í bifreið sinni játuðu sök í málinu, en Mohamed og bræðurnir neituðu sök.
Ítarlega er farið yfir málavexti í löngum dómi héraðsdóms. Í niðurstöðu segir dómari að við ákvörðun refsingar beri til þess að líta að í ákærulið I er fjallað um innflutning töluverðs magns af hættulegu fíkniefni af umtalsverðum styrkleika.
„Ákærðu vinna verkið í félagi og þó þáttur þeirra sé mjög mismikill er hvert og eitt hlekkur í þeirri keðju sem ætluð var til að flytja efnið til Íslands þar sem það var ætlað til söludreifingar.“
Dómari tók ungan aldur bræðranna til greina og að þeim hafði ekki verið gerð refsing áður, hlutu báðir 18 mánaða skilorðsbundna dóma til tveggja ára. Karlmaðurinn sem var með efnin í bifreið sinni hlaut sex mánaða skilorðsbundinn dóm til tveggja ára. Eins og áður sagði játuðu hann og Sunneva bæði sök og lögregluþjónar sem komu fyrir dóm báru að þau hefðu verið samvinnufús og gert sitt til að upplýsa málið.
Í dómnum kom fram að Mohamed var í september 2019 dæmdur í áfrýjunarrétti Vestur-Svíþjóðar í átján mánaða fangelsi fyrir eiturlyfjasmygl og jafnframt vísað frá Svíþjóð og bönnuð endurkoma fyrir 7. október 2024. Samkvæmt sakavottorði var hann í júní 2021 dæmdur á Íslandi í þriggja ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.
Sunneva hlaut 18 mánaða fangelsisdóm og Mohamed fjögurra ára fangelsisdóm. Efnin ásamt farsímum, töflupressu, peningaskáp, tölvuturni og tölvuskjá voru gerð upptæk. Sakborningunum fimm var einnig gert að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna og hluta sakarkostnaðar, að öðru leyti greiðist hann úr ríkissjóði.