Flestir svarendur í nýrri könnun nefna heilbrigðismálin sem eitt af mikilvægustu málefnunum fyrir komandi alþingiskosningar. Þegar aðeins er spurt um mikilvægasta málefnið nefna flestir efnahagsmál.
Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúls Gallup. En svarendur voru beðnir um að velja og raða fimm mikilvægustu málefnin.
Flestir, eða 69 prósent, nefna heilbrigðismálin sem eitt af mikilvægustu málefnunum. Það af 19 prósent sem mikilvægasta málefnið.
62 prósent nefna efnahagsmálin og 26 prósent segja þau vera mikilvægust allra. Litlu færri, eða 61 prósent, nefna húsnæðismálin og 16 prósent telja þau vera mikilvægust. Þessir þrír málaflokkar bera af í Þjóðarpúlsinum.
Í fjórða sæti eru menntamál (36 prósent), fimmta sæti samgöngumál (35), sjötta innflytjendamál (32), sjöunda málefni eldri borgara (30), áttunda umhverfis og loftslagsmál (20), níunda málefni flóttafólks (18) og tíunda málefni ungs fólks (17).
Kjósendur Flokks fólksins, Samfylkingar og Framsóknarflokks er mest umhugað um heilbrigðismál. Kjósendum Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Miðflokks um efnahagsmál. Kjósendum Sósíalistaflokks og Samfylkingar um húsnæðismál. Kjósendum Sjálfstæðisflokks, Pírata og Framsóknarflokks um samgöngumál. Kjósendum Miðflokks og Sjálfstæðisflokks um innflytjendamál.
Könnunin var gerð 21. október til 4. nóvember. Úrtakið var 1816 og svarhlutfall 48,5 prósent.