Frétt eftir blaðamenn Heimildarinnar, Aðalstein Kjartansson og Helga Seljan, sem byggist á leyniupptöku af syni Jóns Gunnarssonar, fyrrum ráðherra og sérstökum fulltrúa forsætisráðherra í matvælaráðuneytinu, hefur verið birt á vef Heimildarinnar.
Talsverður skjálfti hefur verið í dag yfir hinni yfirvofandi frétt. Jón opnaði á málið í færslu á Facebook-síðu þar sem hann sakaði Heimildina og áðurnefnda blaðamenn um árás gegn fjölskyldu sinni. Sagði hann miðilinn hafa staðið á bak við blekkingarleik sem lýsti sér þannig að erlend tálbeita á að hafa komið sér í samband við son Jóns, Gunnar Bergmann Jónsson, sem starfar sem fasteignasali í dag en er fyrrverandi formaður Félags hrefnuveiðimanna.
Hinn erlenda tálbeita þóttist vera efnaður fjárfestir sem hefði áhuga á fasteignaverkefnum og átti þannig tvo fundi með Gunnari sem teknir voru upp að honum óafvitandi. Þar talar hann fjálglega um fyrirætlanir föður síns um að gefa út leyfi fyrir hvalveiðum, helst fyrir kosningar, og vinasamband hans við Kristján Loftsson, forstjóra Hvals hf.
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Heimildarinnar, vísaði ásökunum Jóns hins vegar á bug. Heimildin hefði ekki haft neina aðkomu að tálbeituaðgerðinni heldur aðeins fengið upplýsingarnar í hendurnar eftir að henni var lokið.
Í áðurnefndri frétt lýsir sonur Jóns þeim fyrirætlunum föður síns að heimila hvalveiðar og segir að það verði hans síðasta verk í pólitík og „arfleið hans.“ Segir hann meðal annars að mikið hafi gengið á þegar Jón missti öruggt þingsæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í hendurnar á Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkisráðherra.
Jón hafi verið fokvondur en endað með því að sættast á 5. sæti framboðslistans en það hafi verið með skilyrðum. „Þú verður þá að gera eitthvað fyrir mig,“ segir sonur Jóns að faðir sinn hafi sagt.
Niðurstaðan hafi verið umrædd staða í matvælaráðuneytinu og markmið Jóns að koma hvalveiðum á koppinn að nýju sem „vinargreiða“, eins og segir í fréttinni.
Þá er haft eftir Gunnari að faðir hans telji að leyfisveiting varðandi hvalveiðar geti gagnast Sjálfstæðisflokkum til að ná kjósendum tilbaka sem hafa yfirgefið flokkinn síðustu misseri.
„En afleiðingarnar verða einhverjar… við vitum það ekki. En ég held ekki að það skaði flokkinn okkar. Allir aðrir verða brjálaðir yfir þessu. En margir sem hafa yfirgefið flokkinn okkar munu snúa til baka,“ er haft eftir Gunnari.
Kemur ennfremur fram að helst standi vilji til þess að heimila hvalveiðar fyrir kosningar en ef það næst ekki þá sé einnig tími til þess eftir kosningar á meðan ný ríkisstjórn er í mótun.
Hægt er að lesa frétt Heimildarinnar hér.