fbpx
Miðvikudagur 16.júlí 2025
Fréttir

Jasmina er búin að fá nóg – „Virðist orðið sjálfsagt að benda á innflytjendur og flóttafólk þegar eitthvað fer úrskeiðis“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 6. júlí 2025 14:00

Jasmina Vajzovic kom til Íslands frá Bosníu fyrir tæpum þremur áratugum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jasmina Vajzovic, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, segist orðin þreytt á að útlendingar séu stimplaðir sem sökudólgar fyrir allt sem aflaga fer. Vandi Íslands sé orsök áratugalangri vanrækslu og skorti á fjárfestingu en ekki fjölgun innflytjenda.

„Það eru tímar þar sem ég stoppa og horfi á þjóðfélagið í kringum mig– og það eina sem maður finnur er þreyta. Ekki líkamleg þreyta, heldur sú tegund sem sest í bein og merg, sem dregur úr trausti og tekur frá manni trúna á réttlæti,“ segir Jasmina í pistli á samfélagsmiðlum sem fengið hefur mikla athygli og ber yfirskriftina „Þreytt á að vera sökudólgur.“

„Ég er þar. Þreytt á orðræðunni. Þreytt á því að horfa á sífellt fleiri telja sér trú um að meginástæðan fyrir veikleikum samfélagsins sé „við“. Við sem fluttum hingað til að vinna, lifa, gefa börnum okkar betra líf og lifa í sátt og samlyndi við samfélagið. Við sem völdum ekki (og ráðum engum um) kerfin, stjórnmálin, né forgangsröðunina. Við sem tökum ekki þátt í valdakerfinu þar sem ákvarðar eru teknar um hvernig skattpeningarnir eru notaðir — en greiðum þá samt,“ segir Jasmina.

Hafa lítinn aðgang að umræðunni

Jasmina er stjórnmálafræðingur sem flutti til Íslands frá heimalandi sínu Bosníu fyrir tæpum 30 árum síðan, en þá geisaði blóðug borgarastyrjöld í landinu. Jasmina hefur meðal setið í bæjarstjórn Reykjanesbæjar fyrir flokkinn Frjálst afl.

„Það virðist orðið sjálfsagt að benda á innflytjendur og flóttafólk þegar eitthvað fer úrskeiðis: þegar húsnæðiskerfið er í molum, þegar heilbrigðiskerfið er ofhlaðið, þegar menntakerfið nær ekki utan um alla nemendur, eða þegar velferðarkerfið stíflast,“ segir hún. „Og svo koma staðalmyndirnar — að við séum byrði, að við séum að taka meira en við gefum, að við viljum ekki aðlagast. En tölurnar segja annað. Flest okkar — og þegar ég segi flest, þá tala ég um yfirgnæfandi meirihluta, — vinnum, greiðum skatta, sendum börnin okkar í skóla og tökum þátt í samfélaginu.“

Þrátt fyrir þetta sitja innflytjendur oft eftir. Þeir sem kenna þeim um alls kyns vanda hafa meiri aðgang að umræðunni, fjölmiðlum og völdum. Útlendingar og sérstaklega konur og flóttafólk sem talar ekki reiprennandi íslensku hafa síður rödd í opinberri umræðu.

„Við þurfum að vera „þakklát“, hlýðin og róleg. Allt annað er túlkað sem vanþakklæti eða jafnvel árás,“ segir Jasmina.

Aldagömul orðræða

Jasmina segir að þessi orðræða, að útlendingar séu ábyrgir fyrir kerfisbundinni misráðningu fjármuna, fátækt, vantrausti og húsnæðisskorti, sé ekki ný af nálinni. Hún hafi fylgt mannkyninu í gegnum aldirnar og ávallt með sömu afleiðingum. Það er ójöfnuði, útilokun, hatursorðræðu og að lokum aðgerðum sem byggja á ótta frekar en staðreyndum.

„Þegar samfélag leitar í það mynstur, er það vísbending um að grunnstoðir þess eru að gliðna. Því miður virðist íslenskt samfélag nálgast þann stað. Við sjáum það á umræðu um hælisleitendur, flóttafólk, um aðlögun og um það hvernig margir leyfa sér birta ásakanir á hendur hópa sem geta ekki svara fyrir sig,“ segir Jasmina.

Hvað vill Ísland vera?

Hún segir að það verði hins vegar að snúa spurningunni við og spyrja hvað Ísland vilji vera. Land sem byggi á manngildi, réttlæti, jöfnuði og tækifærum eða land þar sem útlendingahatur og tortryggni verði samnefnari fyrir allar félagslegar áskoranir.

„Ég er ekki hér til að biðjast afsökunar á tilvist minni. Ég hef lagt mitt af mörkum og geri það enn — rétt eins og flestir aðrir sem flutt hafa hingað. Ég geri meira, örlítið, eða töluvert meira en meðal innfæddur Íslendingur ef þjóðerni á skipta máli. Ég er ekki vandamálið. Og ekki „hinir“ innflytjendur heldur. Það er kominn tími til að við segjum það upphátt: innflytjendur eru hluti lausnarinnar, ekki rót vandans!“ segir hún.

Borga meira til samfélagsins en þeir fá til baka

Bendir hún á að innflytjendur séu 18,6 prósent heildaríbúafjölda og að atvinnulífið og þjónusta standi ekki undir sér án þessa hóps. 86 prósent innflytjenda á aldrinum 20 til 64 ára er í atvinnu, sem er hærra hlutfall en Íslendinga á þessum aldri. Innflytjendur greiða í heildina hærri skatta en þeir fá til baka í þjónustu. Hundruð stunda íslenskunám og taka virkan þátt í samfélaginu.

„Það er auðveld lausn að benda á sýnilegan hóp, útlendingana, sem „vandamál“. Það er mun erfiðara að horfast í augu við að vandi heilbrigðiskerfis, húsnæðis og velferðarþjónustu á Íslandi sprettur af áratugalöngum vanrækslum, skorti á fjárfestingu, lélegri langtímahugsun og pólitískum mismununum – ekki fjölgun innflytjenda,“ segir Jasmina. „Við, innflytjendur og flóttafólk, stjórnum ekki fjárveitingum til heilbrigðisráðuneytisins. Við ákveðum ekki hvernig úthlutun íbúða í félagslega kerfinu fer fram. Við ráðum ekki hvernig framhaldsskólar taka á móti fjölbreyttum nemendahópum. Við setjum ekki lög um hælisleitendur eða vinnutíma í leikskólum. Eða einhverju öðru í samfélaginu ef það á að skipta.  En samt virðist það vera við sem berum ábyrgðina. Hvernig getur sá hópur sem stendur valdlaus verið gerður ábyrgur fyrir því hvernig völd eru misnotuð?“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Fær ekki að byggja gistihús á Laugavegi

Fær ekki að byggja gistihús á Laugavegi
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Framkvæmdastjóri Parka skýrir málin – „Við erum í sama liði og neytendur“

Framkvæmdastjóri Parka skýrir málin – „Við erum í sama liði og neytendur“
Fréttir
Í gær

Réttað yfir Tesla vegna dauða ungrar konu – Hafi hunsað viðvaranir um sjálfstýringarbúnað í áraraðir

Réttað yfir Tesla vegna dauða ungrar konu – Hafi hunsað viðvaranir um sjálfstýringarbúnað í áraraðir
Fréttir
Í gær

Oscar heldur upp á ríkisborgararéttinn með ferðalagi um Ísland

Oscar heldur upp á ríkisborgararéttinn með ferðalagi um Ísland
Fréttir
Í gær

Gangstígur lagður alveg upp við Árskóga í óþökk íbúa – „Hafa aftur og aftur reynt að fá áheyrn“

Gangstígur lagður alveg upp við Árskóga í óþökk íbúa – „Hafa aftur og aftur reynt að fá áheyrn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Deila vegna sölu fáksins Dags frá Kjarnholtum fyrir dómstóla – Hörð orðarimma í hesthúsi í Víðidal

Deila vegna sölu fáksins Dags frá Kjarnholtum fyrir dómstóla – Hörð orðarimma í hesthúsi í Víðidal