Úkraínskar hersveitir lögðu hluta af héraðinu undir sig þegar þær réðust inn í það í ágúst síðastliðnum og síðan þá hefur hluti héraðsins verið undir þeirra stjórn. Rússar telja að nú sé nóg komið og má vænta þess að stór bardagi sé fram undan þar sem Rússar ætla að endurheimta svæðið.
Frá þessu greinir New York Times og hefur eftir heimildarmönnum sínum. Að sögn mun þetta ekki koma niður á aðgerðum rússneska hersins í austurhluta Úkraínu.
Úkraínumenn eru sagðir búast við stórri árás á næstu dögum þar sem hermenn frá Norður-Kóreu munu einnig taka þátt. Þeir eru sagðir hafa verið í æfingabúðum Rússa í Kúrsk-héraði þar sem þeir búa sig undir að endurheimta héraðið að fullu.
Stríð Rússa og Úkraínu hófst með innrás Rússa í febrúar 2022 og síðan þá hefur gríðarlegt mannfall orðið.
Nýliðinn októbermánuður er sagður hafa verið sá versti hjá Rússum hvað mannfall varðar síðan stríðið hófst. Á degi hverjum hafi 1.500 hermenn dáið eða særst að meðaltali. Er mannfall Rússlandshers sagt vera að nálgast 700.000 hermenn síðan innrásin hófst.