Inga skrifar aðsenda grein í Morgunblaðið í dag þar sem hún segir illa farið með þær konur sem voru heimavinnandi húsmæður á árum áður.
„Á árum áður eyddu margar konur starfsævinni sem heimavinnandi húsmæður og það er dapurt hvað eitt mikilvægasta starf sem til er, hefur hlotið allt of litla virðingu samfélagsins,“ segir Inga í grein sinni og bætir við:
„Fá störf eiga eins mikla og virðingu skylda og að ala upp börnin sín og annast af alúð.“
Inga segir að nú sé það svo þegar börnin eru uppkomin og konurnar sjálfar komnar á efri ár þá bíði ekkert annað en sára fátækt.
„Þakkirnar eru heilsuleysi og höfnun samfélagsins. Þetta eru konurnar sem eiga engin lífeyrissjóðsréttindi og hafa engar aðrar tekjur en greiðslur almannatrygginga. Með öðrum orðum, þá eru þetta ömmurnar okkar sem búa við sára fátækt í okkar ríka landi,“ segir hún.
Inga segir að litla hjálp sé að fá þegar heilsan bregst og tími er kominn á aðstoð. Hún segir að hver ríkisstjórnin á fætur annarri hafi rekið skortstefnu í uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Biðlistar hrannist upp þar sem fjöldi fárveiks eldra fólks má bíða eftir örygginu og umhyggjunni sem þau sárlega þarfnast á lokaæviskeiði sínu.
„Hvernig vegnar þeim konum sem nú er að ná eftirlaunaaldri? Það er sorglegt að þurfa að viðurkenna að fjórðungur þeirra á aldrinum 63 til 66 ára hefur algjörlega misst heilsuna og eru orðnar öryrkjar. Þetta er kynslóð kvenna sem ól önn fyrir börnunum og sáu um húsverkin, baksturinn, eldamennskuna, auk þess að vinna utan heimilis þar sem í landi tækifæranna þurftu og þurfa allir sem vettlingi geta valdið að vinna fyrir peningum til að geta lifað af það okur sem hér hefur verið við líði meiri hluta lýðveldissögunnar. Hér er ég auðvitað að tala um það sem er almennt en ekki þá sem hafa skarað eld að eigin köku og láta sér standa á sama um allt og alla nema sig og sína.“
Inga segir að þessar fullorðnu konur séu nú útslitnar og fái enga umbun erfiðisins. Þeirra bíði ekkert nema óöryggi og basl efri áranna.
Inga kveðst að lokum vera stolt af því að á Alþingi sé Flokkur fólksins lang öflugasti málsvari þeirra þúsunda sem stjórnvöld hafa múrað inni í rammgerðri fátækt. „Flokkur fólksins lýtur höfði í auðmýkt og þakklæti til alls þessa fólks og vanmetinna verkanna sem þau hafa unnið.“