Kerfisbilun í stýrikerfi Microsoft hefur valdið fullkominni ringulreið á heimsvísu. Búið er að kyrrsetja eða fresta flugferðum um allan heim og þá hafa bankar, kreditkortafyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki og fjölmiðlar upplifað örðugleika í starfsemi sinni. Vandamálið virðist tengjast nýrri uppfærslu hjá bandaríska hugbúnaðarfyrirtækinu Crowdstrike, sem sérhæfir sig í vírusvörnum og þjónustar meðal annars Microsoft. Svo virðist sem uppfærslan á vírusvarnarforritinu Crowdstrike Falcon valdi því að stýrikerfi tæknirisans hrynur. Microsoft hefur boðað að verið sé að vinna í mildunaraðgerðum en óvíst er hversu hratt lausn finnst á vandanum.
Búast má við gríðarlegum seinkunum og niðurfellingum fluga um allan heim vegna vandamálsins þar sem bókunar- og innritunarkerfi fjölmargra stórra flugfélaga liggur niðri. Hefur verið brugðið á það ráð sumsstaðar að skrifa komu- og brottfarartíma handvirkt á tússtöflur og handskrifuð brottfararspjöld eru farin að láta á sér kræla.
The Microsoft / CrowdStrike outage has taken down most airports in India. I got my first hand-written boarding pass today 😅 pic.twitter.com/xsdnq1Pgjr
— Akshay Kothari (@akothari) July 19, 2024
Samkvæmt frétt Mbl.is hefur Isavia orðið vart við vandamálið en þó ekki með beinum hættum, aðeins þannig að flug til landsins hafa tafist eða þau felld niður. Einn af þeim sem á flug í dag er fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason, sem dvalið hefur í Grikklandi ásamt fjölskyldu sinni undanfarin misseri. „Jæja, þá kemst maður kannski ekki heim,“ sagði fjölmiðlamaðurinn svartsýnn fyrir stundu á Facebook-síðu sinni og sér fram á strembinn dag.